Þetta er niðurstaðan í Þjóðarpúlsi Gallup. Þar var spurt: „Hvaða málefni er að þínu mati mikilvægast að stjórnvöld setji í forgang á næstunni?“ og fólk beðið um að forgansraða málefnunum í röð eftir mikilvægi.
Í tilkynningu með niðurstöðum könnunarinnar segir að niðurstöðurnar endurspegli ekki að öllu leyti forgangsröðun flokkanna, miðað við svör forsvarsmanna þeirra hingað til þegar þeir hafi verið spurðir út í mikilvægustu stefnumál flokka sinna.
Sá málaflokkur sem oftast var talinn mikilvægastur eru efnahagsmál, en 26 prósent svarenda sögðu þau mikilvægust allra mála. Enahagsmálin rötuðu í eitt efstu fimm sætanna í 62 prósent tilfella. Eina málefnið sem rataði oftar á lista svarenda voru heilbrigðismálin, í 69 prósent tilfella, en 19 prósent svarenda settu þau í fyrsta sætið.
Hér að neðan má sjá hvernig forgangsröðunin skipist.

Húsnæðismál eru þá í þriðja sæti yfir þau málefni sem fólk setur í fyrsta sæti. Innflytjendamál, málefni eldri borgara og umhverfis-og loftslagsmál koma næst, en fimm prósent hver setja þá málaflokka í fyrsta sætið.
Niðurstöðurnar eru úr netkönnun sem gerð var dagana 21. október til 4. nóvember. Heildarúrtakið var 1.816 og þátttökuhlutfallið 48,5 prósent. Einstaklingar í úrtakinu voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.