Skoðun

Dagur ís­lenskrar tungu 2024: Væntum­þykja í 60 ár

Eva María Jónsdóttir skrifar

Síðastliðin sextíu ár hefur verið til nokkuð sem kallast Íslensk málnefnd. Verkefni málnefndarinnar eru öll unnin í þágu íslensku, tungumálsins sem er opinbert mál á Íslandi og hefur verið talað og skrifað á landinu í rúm þúsund ár.

Um íslenska tungu eru til sérstök lög sem hafa að markmiði að vernda og efla tungumálið. Þar er meðal annars kveðið á um íslenskt táknmál og verkefni íslenskrar málnefndar. Þar er ekkert að finna um viðurlög eða refsingar. En það er til lítils að vísa aftur í tímann eða í lagabókstaf ef viðhorf landsmanna til íslensku er dauft eða ósýnilegt. En hvað vitum við um viðhorf landsmanna til íslensku?

Fyrr á þessu ári lét Menningar- og viðskiptaráðuneytið gera viðhorfskönnun sem leiddi í ljós að 97 % landsmanna þykir vænt um íslenska tungu. Litlu færri sögðust nota íslensku mikið í daglegu lífi sínu en 66% sögðust hafa miklar áhyggjur af áhrifum ensku á færni barna og ungmenna í íslensku.

Á degi íslenskrar tungu er ástæða til að fagna velviljanum sem birtist í því að nánast allir á Íslandi hafi sterkar og jákvæðar tilfinningar til tungumálsins og telji það skipta máli. Um leið má hvetja landsmenn til að nota tungumálið sem víðast og sem mest, sýna velvilja sinn og samtöðu í verki með því að vanda til verka og nýta þann gnægtabrunn sem tungumálið er til að skapa, tjá, gleðja, tengja, bulla, vinna, kenna, grínast, minnast , rökstyðja, hugsa og leika.

Því er eins farið um íslensku og væntumþykjuna, því meira sem þetta tvennt er notað, því meira styrkist hvort tveggja.

Höfundur er varaformaður Íslenskrar málnefndar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×