Heimildarmaður AP-fréttastofunnar innan Hezbollah fullyrðir að Mohammed Afif, yfirmaður almannatengsla þeirra, hafi fallið í árás á skrifstofu Baath-flokksins í miðborg Beirút. Afif þessi hafði verið sérstaklega áberandi eftir að stríð braust út á milli Hezbollah og Ísraelshers í september og fall Hassans Nasrallah, leiðtoga samtakanna.
Opinberar tölur um mannfall í árásinni liggja ekki fyrir en ljósmyndari AP sá fjögur lík og fjóra særða á vettvangi.
Síðast réðst Ísraelsher á miðborg Beirút 10. október en þá féllu tuttugu og tveir í árásum á tvo staði. Fleiri en 3.400 manns hafa fallið í árásum Ísraela á Líbanon, flestir þeirra í sunnanverðu landinu þar sem höfuðvígi Hezbollah er.
Þá féllu tólf manns í árásum Ísraela í Nuseirat og fjórir til viðbótar í Bureij á Gasa í nótt samkvæmt upplýsingum heilbrigðisyfirvalda þar.