Aron meiddist í fyrri hálfleik í leik Íslands og Svartfjallalands í Niksic á dögunum og er ljóst að meiðslin halda honum frá keppni í kvöld. Skellur ekki bara fyrir íslenska landsliðið, heldur einnig Aron Einar sem er mikils metinn í Cardiff eftir frábæran tíma sem leikmaður Cardiff City hér á árum áður.
„Hann fór í myndatöku og við vorum búnir að bíða eftir niðurstöðu. Þess vegna kölluðum við ekki nýjan leikmann inn í hópinn. Hann er meiddur og verður ekki klár í þennan leik,“ sagði Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands í viðtali við íþróttadeild í gær. „Hann flýgur því aftur til Katar á morgun. Síðan verðum við að bíða og sjá hvernig við bregðumst við því.“
Aron verður því ekki viðstaddur á Cardiff City leikvanginum þar sem að félag hans vildi fá hann heim til Katar sem fyrst til að taka stöðuna á meiðslunum og hefja endurhæfingu.
„Hann var hérna í átta ár. Hér þekkja hann allir og hann var mjög vonsvikinn með að geta ekki spilað þennan leik. Ég skil hann fullkomlega. Hann þjáist mikið á þessari stundu en verður núna fyrst og fremst að einblína á að ná fullum bata. Hann er ávallt öðrum leikmönnum mikill innblástur. Hann hefur verið frábær í kringum hópinn undanfarna daga. Hugarfar hans og áran í kringum hann smitar út frá sér. Það hefur verið gott að hafa hann með okkur.“
Viðtalið við Hareide, sem tekið var eftir æfingu landsliðsins á Cardiff City leikvanginum í gær, má sjá hér fyrir neðan. Leikur Wales og Íslands hefs klukkan korter í átta í kvöld og verður hann sýndur í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.