Þríþrautarkonan heitir Taylor Knibb og var að keppa á heimsbikarmóti í Dúbaí. Hún vann frábæran sigur á mótinu þrátt fyrir að hafa lent í miklum vandræðum með magann á sér í keppninni.
Knibb varð fyrir því óláni að gera í brækurnar á síðustu kílómetrum hlaupsins. Myndband af henni ræða við myndatökumann vakti athygli.
Gerðu það fyrir mig
„Ég var að skíta á mig. Gerðu það fyrir mig að mynda mig ekki aftan frá. Takk fyrir,“ sagði Taylor Knibb kurteislega við myndatökumanninn. Hún átti bara nokkra metra eftir í markið.
Knibb hefur fengið hrós á samfélagsmiðlum. Ekki aðeins fyrir að vinna keppnina þrátt fyrir þetta óheppilega slys heldur einnig fyrir að sýna ótrúlega yfirvegun og kurteisi á mjög vandræðalegu mómenti.
Frábært ár
Þó að þetta myndband hafi vissulega vakið mikla athygli á vandræðum hennar þá má alls ekki gleyma árangri henni í keppninni því Knibb vann þarna frábæran sigur og enn einn sigur sinn á árinu 2024.
Knibb hefur nefnilega átt frábært ár og vann einnig heimsbikarmót í San Francisco, á Ibiza og í Las Vegas.
Taylor Knibb vann auk þess silfurverðlaun í blandaðri liðakeppni á Ólympíuleikunum í París í sumar alveg eins og á Ólympíuleikunum í Tókýó þremur árum fyrr.