„Hún á að vera ágætlega varin, þannig að við verðum bara að vona að hún gefi sig ekki,“ bætir hann við.
Úlfar var til viðtals við fréttastofu rétt í þessu og var meðal annars spurður út í rýminguna í nótt.
„Við erum að sjálfsögðu orðin dálítið vön þessum aðgerðum þannig að aðgerð okkar í gærkvöldi gekk vel. Aðdragandinn að þessu gosi var ekki langur; það var hringt í mig rétt fyrir ellefu og einhverjum sautján mínútum síðar þá hefst gosið. En rýmingin í Grindavík gekk vel, það var svo sem enginn asi á mönnum. Hættan var ekki alveg ofan í bænum.“
Úlfar segir rýminguna í Svartsengi sömuleiðis hafa gengið vel.
Lokunarpóstar séu á Grindavíkurvegi, þar sem hraun hefur þegar flætt yfir.
„Grindavíkurvegur er úr leik,“ segir Úlfar.
„Hraun hefur runnið yfir veginn þannig að það er ekki hægt að aka frá Reykjanesbraut inn í Grindavík og Grindavíkurveg. Þannig að við erum með lokunarpósta á Grindavíkurvegi upp við Reykjanesbraut. Síðan er lokunarpóstur á Suðurstrandarvegi við Fagradalsfjall, eða á bílastæði sem við köllum T1. Og eins er lokunarpóstur við golfvöllinn, fyrir utan Grindavík.“
Spurður um aðgengi íbúa í dag segir Úlfar að verið sé að hleypa starfsmönnum fyrirtækja inn í bæinn í augnablikinu og þá eigi blaðamenn þess kost að fara inn fyrir lokunarpósta, eins og samið hafi verið um.