Þá gagnrýnir hann einnig harðlega hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um móttökuskóla fyrir börn af erlendum uppruna og aðra sérskóla.
„Að vera með sérskóla fyrir börn með erlendan bakgrunn og sérskóla fyrir börn með þroskaröskun og sérskóla hér og þar. Það er ekki skóli sem er hugsaður til þess að byggja upp samfélag fyrir alla.“
Það sé ekki rétta svarið við áskorunum sem fylgja fjölbreytni samfélagsins að flokka það niður eftir styrkleika eða veikleika. Rétta leiðin sé að hlusta á fólkið inni í skólunum, búa til verkfærin til að aðstoða þau við að takast á við verkefnin. Það eigi meðal annars við um námsgögn.
„Halló hvar hafið þið verið í öll þessi ár?"
Ásmundur segir að betra væri að efla námsgagnaútgáfu frekar en að flokka börn og setja þau í sérskóla. Kennarasambandið hafi kallað eftir því í langan tíma að fá aukið námsefni þegar kemur að íslensku sem öðru tungumáli.
Jafnframt sé gert ráð fyrir 50 prósent aukningu þróunarfé til leik- og grunnskóla í fjárlögum næsta árs. Framsóknarflokkurinn sé nú kominn í fjármálaráðuneytið og þá fyrst hafi borið á auknum fjárveitingum til menntamála.
„Á sama tíma koma þeir flokkar sem hafa setið í fjármálaráðuneytinu í mjög mörg ár og vilja efla námsgagnaútgáfu.“
„Bara halló, hvar hafið þið verið í öll þessi ár sem ég var í menntamálaráðuneytinu og Lilja Alfreðsdóttir á undan? Þegar þið hafið beinlínis lagt til niðurskurð á hverju einasta ári, barist gegn því að við setjum fjármagn inn í þessa málaflokka, og svo komið þið núna og ætlið að boða innspýtingu í námsgagnaútgáfu? Bara velkomin í hópinn en ég bara treysti ykkur ekki til að vera tilbúinn að til að fjárfesta í menntakerfinu,“ segir Ásmundur Einar.
Viðtalið var birt á Youtube-síðu Framsóknarflokksins, en umræða um þessi atriði hófst á mínútu 34.