Skoðun

Nýtt upp­haf – í þjónustu við þjóðina

Arna Lára Jónsdóttir skrifar

Við í Samfylkingunni óskum eftir þínum stuðningi til að leiða breytingar sem nauðsynlegar eru fyrir Ísland. Við höfum átt í innihaldsríku samtali við þjóðina síðastliðin tvö ár og því ætlum við að halda áfram. Það að vera í þjónustu við þjóðina þýðir að hlusta og rækta samband við fólkið í landinu. Það höfum við gert og ætlum að gera áfram. Þetta samtal er grunnurinn að stefnu Samfylkingarinnar fyrir þessar kosningar sem birtist í Planinu, þremur útfærðum tillögum í efnahagsmálum, velferðarmálum og atvinnu- og innviðamálum.

Samfylkingin er búinn að vinna heimavinnuna og getur strax brett upp ermar og komið stefnumálum sínum í framkvæmd.

Það sem við ætlum að gera:

  1. Negla niður vextina og hætta að reka ríkissjóð á yfirdrætti. Það gengur ekki að fólk sé að borga himinháa vexti af lánunum sínum, komist ekki út á húsnæðismarkaðinn, að ekki sé talað um áhrifin á framboð húsnæðis. Vaxtabyrðin hefur gríðarleg áhrif á rekstur sveitarfélaga. Við verðum að lækka kostnað heimila og fyrirtækja.
  2. Laga heilbrigðiskerfið. Fastur heimilislæknir sem þekkir þig og heilbrigðisþjónusta óháð búsetu eru meginstefið ásamt þjóðarátaki í umönnun eldra fólks. Eldra fólk á það skilið.
  3. Styrkja stoðir atvinnulífs um allt land. Sterkir innviðir eru forsenda kraftmikils atvinnulífs. Það þarf að tvöfalda fjárfestingu til samgönguinnviða og auka raforkuframleiðslu.

Viljum við nýtt upphaf eða meira af því sama? Lykillinn að því að ná fram breytingum er að kjósa Samfylkinguna og veita henni sterkt umboð til að leiða þessar breytingar með Kristrúnu Frostadóttur í broddi fylkingar.

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×