Netanjahú tilkynnti þetta í sjónvarpsávarpi. Búist sé við því að stjórnin samþykki vopnahlé síðar í kvöld.
Forsætisráðherrann gaf ekki upp frekari upplýsingar um vopnahléið en samkvæmt líbönskum miðlum er búist við að það hefjist á morgun, miðvikudag.
Hann varaði við því að Ísraelar muni bregðast við hvers kyns brotum á skilmálum vopnahlésins af öllu afli. „Fyrir hvert brot munum við ráðast gegn þeim af krafti,“ sagði Netanjahú.
Vopnahléið muni hins vegar engin áhrif hafa á stríðið á Gasa. Það muni frekar koma til með að einangra Hamas-liða og gefa Ísraelum færi á að einbeita sér að Íran, sem hafa stutt dyggilega við bak Hezbollah.
Talið er að rúmlega 3500 Líbanir hafi látist í átökum ríkjanna síðasta rúma ár, og 15000 slasast. Á móti kemur er talið að um 140 ísraelskir hermenn og borgarar hafi látið lífið.