Hléið var tilkynnt formlega af talsmönnum Frakka og Bandaríkjamanna og ef það heldur felur það í sér að Ísraelar munu draga sig til baka frá Líbanon og Hezbollah samtökin munu skuldbinda sig til þess að halda sig norðan við Litani ána, sem er um 30 kílómetra norður af landamærunum að Ísrael.
Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að vopnahléið sé ótímabundið en Ísraelar segjast áskilja sér rétt til þess að ráðast samstundis að Hezbollah ef samtökin brjóta skilmálana.
Ísraelsher hefur einnig varað íbúa Líbanons sem flúðu frá landamærunum við að snúa aftur strax, en þrátt fyrir það hafa langar raðir myndast af fólki sem hyggjast snúa aftur til síns heima.
Hluti af samkomulaginu er á þá leið að stjórnarherinn í Líbanon taki yfir svæðin í suðurhluta landsins og eru hermenn nú á leið í það verkefni.
Íranir, sem standa þétt við bakið á Hezbollah, hafa einnig fagnað samkomulaginu og segja að með því sé bundinn endir á ofbeldi Ísraela í Líbanon.