Skoðun

Fyrir­tæki sem stundar stór­felld mann­réttinda­brot í Palestínu haslar sér völl á Ís­landi

Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Þýska fjölþjóðlega fyrirtækið Heidelberg Cement hyggst hefja tröllaukið verkefni á Íslandi. Starfsemin felst í stórfelldum efnisflutningum, áformað er að moka burtu Litla-Sandfelli í Þrengslum og flytja um Þorlákshöfn með flutningsskipum út til Evrópu og nota sem íblöndunarefni í sement. Í frétt á visir.is 24. 8. 22 segir „Ef fram fer sem horfir á Þorlákshöfn eftir að taka stakkaskiptum á allra næstu árum; stórfelld flutningsstarfsemi og vinnsla jarðefna af áður óþekktri stærðargráðu sem til stendur að nota sem íblöndunarefni í sement úti í Evrópu, mun breyta Þorlákshöfn til frambúðar. Úr friðsælu sjávarþorpi í annasaman verksmiðjubæ.“

Þorsteinn Víglundsson, talsmaður Heidelberg Cement á Íslandi segir í viðtali á visir.is

Ef af verkefninu verður er það einlægur vilji fyrirtækisins að vinna það í góðri sátt við samfélagið, bæði íbúa þess og náttúru, og mun Heidelberg kappkosta að vera í hvívetna góður nágranni.“ Þorsteinn segir ennfremur að „verkefnið sé aldrei gott fyrir fyrirtækið ef það er ekki gott fyrir samfélagið“

Umsögn Þorsteins stingur í stúf við starfsemi Heidelberg Cement á hernumdum svæðum í Palestínu. Þar á fyrirtækið þátt í að ræna náttúruauðlindum úr Nahal Raba námunni á landi þorpsins Al-Zawiya á Vesturbakkanum, með alvarlegum mannréttindabrotum gegn Palestínumönnum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu hollensku samtakanna SOMO og mannréttindasamtakanna Al-Haq.

Í þrettán ár hefur Heidelberg Cement nýtt Nahal Raba námuna, sem er á hernumdu svæði á Vesturbakkanum. Hanson Israel, dótturfyrirtæki Heidelberg Cement sem starfrækir námuna hefur meinað palestínskum eigendum landsins aðgang að löndum sínum sem hefur verið þeirra lífsviðurværi. Hanson Israel seldi auk þess vörur úr námunni til ólöglegra, ísraelskra landránsbyggða. Starfsemi Heidelberg Cement á Vesturbakkanum er skýrt dæmi um aðkomu fjölþjóðafyrirtækja að langvarandi hernámi Ísraels, kerfisbundnum mannréttindabrotum og afneitun á grundvallarréttindum Palestínumanna til sjálfsákvörðunarréttar og yfirráða yfir náttúruauðlindum.

Þorsteinn Víglundsson segir að „ekkert verði gert án samráðs við íbúa, þar liggi fyrir einlægur vilji af hálfu Heidelbergs. Og fyrirtækið sé boðið og búið í að upplýsa um framgang málsins á öllum stigum“. Þetta eru orð sem ekki stemma við háttalag Heidelberg Cement á landránssvæðinu í Palestínu.

Höfundur er formaður Félagsins Ísland - Palestína.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×