Þegar svör skólastjóranna voru greind eftir hverfum eða miðstöðvum komi fram að í Austurmiðstöð segi níu skólastjórar já en sex að skólinn sé ekki símalaus, í Norðurmiðstöð sögðu átta skólar já og þrír nei. Í Suðurmiðstöð sögðu þrír skólastjórar já og tveir nei. Í Vesturmiðstöð sögðu sex skólastjórar já og einn nei. Nánar hér.
Skólastjórarnir voru einnig spurðir hvernig símabanninu væri framfylgt og hvernig það hefði gengið. Flestir skólastjórarnir sögðu að vel hefði gengið að framfylgja símabanninu.
Slökkt á símanum og hann í töskunni
Reglurnar varðandi símanotkun væru á þá leið að slökkt ætti að vera á símunum og að þeir ættu að vera í töskum nemenda á skólatíma en að ef nemendur gleymdu sér og hefðu símana uppi við, minntu kennarar þá á reglurnar og bentu nemendum á að setja símana í töskur sínar.
Þá segir að í þeim tilvikum þar sem nemendur fylgdu ekki fyrirmælum um að setja símana aftur í töskurnar hafi símarnir verið teknir af þeim og hringt í foreldra eða forráðamenn og þeir beðnir að sækja símana.
Þá hafi nokkrir skólastjórar í þessu samhengi nefnt að það skipti miklu máli að reglur um símanotkun hefðu verið samdar í samráði við nemendur og jafnvel foreldra og það skipti miklu máli varðandi vilja nemenda til að framfylgja þeim. Þá hafi einn skólastjóri nefnt að nemendur og foreldrar hefðu skrifað undir sérstakan samning varðandi símanotkunina sem hjálpaði mikið til við að reglunum væri framfylgt. Þó er tekið fram að ekki hafi verið spurt sérstaklega um þetta atriði og það megi vel vera að þetta sé einnig gert í fleiri skólum en þessum eina skóla.