Skoðun

Jöfn tæki­færi í boði Sjálf­stæðis­flokksins

Snorri Ingimarsson skrifar

Trúin á manninn og frelsisþrá hans er í öndvegi í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Í því felst frelsi einstaklingsins og óbilandi trú á að hægt sé að skapa öllum jöfn tækifæri til að ná langt, óháð uppruna og efnahag. Um leið vill flokkurinn tryggja afkomu og verja velferð allra sem eiga undir högg að sækja í lífinu. Meðal annarra orða, styðja sjálfstæða og þróttmikla einstaklinga, þeir eiga að vera kjölfestan í frjálsu og öflugu atvinnulífi. Gæta þess jafnframt að enginn komist á vonarvöl, hvort heldur sem er vegna sjúkdóma eða fátæktar. Áhersla Sjálfstæðismanna er einmitt að hjálpa þeim sem lenda í hremmingum til sjálfshjálpar, þar sem það er nokkur kostur.

Það er bjargföst trú mín, sem og annarra Sjálfræðismanna, að leiðin að betra samfélagi sé sú að skapa jöfn tækifæri fyrir alla. Þannig eigi allir sem sýna frumkvæði og dugnað að fá til þess brautargengi. Með jöfnum tækifærum fyrir alla leysum við mun meiri orku úr læðingi heldur en með jafnri og fyrirhyggjulausri útdeilingu á gæðum úr sameiginlegum sjóðum.

Árangurríkasta leiðin til jöfnuðar felst því ekki í að deila út veraldlegum gæðum í blindni, heldur miklu frekar að skapa jafnan grunnvöll til að einstaklingurinn fái notið sín í krafti dugnaðar og elju. Margir „jafnaðarmenn“ telja til að mynda austur úr ríkissjóði leiða af sér hagsæld. Margsannað er að svo er ekki. Það er því einmitt fólk sem lifir í samræmi við grunngildi Sjálfstæðisflokksins sem eru hinir sönnu „jafnaðamenn“ og sannarlega flytur trúin á mátt og megin einstaklingsins fjöll.

Í umræðunni gleymist oft að verðmætasköpun hvílir á fólkinu og vilja þess til verka ásamt fyrirtækjum sem það drífur áfram og rekur. Það þarf því að standa vörð um einstaklinginn. Þess vegna standa grunngildi Sjálfstæðisflokksins fyrir árangursríkari jafnaðarmennsku heldur en jafnaðarmennska vinstrimanna.

Styðjum Sjálfstæðisflokkinn á kjördag!

Höfundur er rafmagnsverkfræðingur og í 11. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×