Enski boltinn

Van Nistelrooy sár yfir því að hafa verið látinn fara frá United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruud van Nistelrooy stýrði Manchester United í fjórum leikjum áður en Rúben Amorim tók við liðinu.
Ruud van Nistelrooy stýrði Manchester United í fjórum leikjum áður en Rúben Amorim tók við liðinu. getty/Robbie Jay Barratt

Ruud van Nistelrooy sárnaði að hafa ekki fengið að halda áfram að starfa fyrir Manchester United þegar nýi knattspyrnustjórinn, Rúben Amorim, tók við.

Van Nistelrooy var ráðinn aðstoðarmaður Eriks ten Hag hjá United í sumar. Þegar Ten Hag var rekinn tók Van Nistelrooy tímabundið við Rauðu djöflunum og stýrði þeim í fjórum leikjum. Þrír þeirra unnust og einn endaði með jafntefli.

Þrátt fyrir það ákvað Amorim ekki að halda Van Nistelrooy í þjálfarateyminu og Hollendingurinn yfirgaf því United.

„Þegar ég tók við sem bráðabirgðastjóri sagði ég að ég væri hérna til að hjálpa United og vera áfram til að hjálpa félaginu og ég meinti það. Svo ég var mjög vonsvikinn og það var sárt að þurfa að fara,“ sagði Van Nistelrooy.

„Á endanum sætti ég við það því ég skil líka nýja stjórann. Ég hef verið lengi í fótboltanum og verið stjóri sjálfur. Ég skil þetta. Ég ræddi við Rúben um þetta. Ég er þakklátur fyrir samtalið, maður á mann, stjóri á stjóra. Það hjálpaði mér að halda áfram og ræða um nýja möguleika sem gladdi mig.“

Van Nistelrooy var ekki lengi atvinnulaus því hann var á dögunum ráðinn stjóri Leicester City. Hann stýrir liðinu í fyrsta sinn þegar það tekur á móti West Ham United í kvöld. Leicester er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tíu stig eftir þrettán leiki, einu stigi frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×