Fótbolti

Neuer sá rautt og Bayern enn á ný úr leik

Sindri Sverrisson skrifar
Manuel Neuer var rekinn af velli í kvöld.
Manuel Neuer var rekinn af velli í kvöld. Getty/Tom Weller

Ógöngur Bayern München í þýska bikarnum í fótbolta halda áfram því liðið féll í kvöld úr leik í 16-liða úrslitum, eftir 1-0 tap gegn meisturum Leverkusen.

Bayern var án Harry Kane sem missir af næstu leikjum vegna meiðsla, og ekki skánaði staða liðsins þvegar markvörðurinn Manuel Neuer fékk rautt spjald í fyrri hálfleiknum í kvöld.

Neuer var rekinn af velli á 17. mínútu þegar hann fór út fyrir eigin vítateig og braut klaufalega á Jeremie Frimpong sem var að elta langa sendingu.

Varamarkvörðurinn Sven Ulreich var ekki á bekknum hjá Bayern í kvöld af persónulegum ástæðum og því var það þriðji markvörður liðsins, Daniel Peretz, sem kom inn á fyrir Neuer og hann varði vel frá Frimpong á 33. mínútu.

Bayern náði að skapa sér færi í leiknum, þrátt fyrir að vera manni færri, en það var varamaðurinn Nathan Tella sem skoraði eina mark leiksins á 69. mínútu, með skalla eftir fyrirgjöf Alejandro Grimaldo.

Bayern þarf því enn að bíða eftir næsta bikarmeistaratitli en liðið hefur ekki komist í undanúrslit síðan árið 2020 þegar það vann keppnina annað árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×