„Kosningafundir og kappræður voru eins og gengur mis skemmtilegar og áhugaverðar en eitt þótti mér stórskemmtilegt; Það voru Kappleikarnir, kappræður fyrir unga fólkið sem haldnar voru í liðinni viku,“ sagði biskups í prédikun sinni í Hallgrímskirkju á fyrsta sunnudag í aðventu.
Kappleikarnir fóru fram í beinni útsendingu á Stöð 2 og Vísi þriðjudaginn fyrir kosningar. Þetta voru skemmtilegar kappræður þar sem frambjóðendur fengu ýmis öðruvísi verkefni en þekkist í venjulegum kosningum.
„Það sem gerði þessar kappræður óvenjulegar var að fulltrúar flokkana þurftu að vinna saman við að svara spurningum og svo áttu þau að mála mynd af hvert öðru. Það sem mér þótti gott við þetta var að við fengum að sjá frambjóðendur í öðru ljósi en venjulega,“ sagði Guðrún.
Í innslaginu, sem má sjá hér fyrir ofan, settust frambjóðendur niður tveir og tveir og máluðu mynd af hvor öðrum. Útkoman var misgóð, en flestallir voru sáttir með myndina af sér.
„Það hlýtur að opna eitthvað fallegt í hjartanu að þurfa að horfa á manneskju, þó að hún sé með andstæðar skoðanir og hugsjónir á við okkur og finna út hvað það er sem einkennir hana. Vissulega er hægt að gera þetta með húmor, en ég trúi því líka að ef fólk getur hlegið saman þá getur það unnið saman. Ef til vill stillir það neikvæðum væntingum til viðkomandi í hóf og opnar augu þess er heldur á penslinum fyrir því að í hverri manneskju býr margt fleira en eingöngu pólitískar skoðanir,“ sagði Guðrún.
Að lokum sagði hún hugmyndina svo góða að hana hafi dottið í hug að þetta væri verðugt verkefni fyrsta daginn sem fólk sest á þing, að mála mynd af hvert öðru.