Hljómsveitin flutti lagið Plug In Baby með bresku hljómsveitinni Muse, en með íslenskum texta.
Brynja Gísladóttir úr Tækniskólanum hafnaði í öðru sæti með lagið Skil ekki neitt. Birta Dís Gunnarsdóttir úr Menntaskóla í tónlist hafnaði í því þriðja með laginu Hún býr í mér.
Dómnefnd skipuðu Diljá Pétursdóttir tónlistarkona og Eurovision fari, tónlistarmaðurinn Pálmi Gunnarsson og leik-og tónlistarkonan Þórdís Björk Þorfinnsdóttir.
Á vef MA segir að Skandall hafi verið stofnuð í MA í október 2022 fyrir hljómsveitarkeppnina Viðarstauk og hafi sveitin spilað á ýmsum viðburðum síðan.
„Hljómsveitina skipa þær Helga Björg Kjartansdóttir, bassi, Inga Rós Suska Hauksdóttir, söngur, Kolfinna Ósk Andradóttir, hljómborð og fiðla, Margrét Sigurðardóttir, gítar, Sóley Sif Jónsdóttir, trommari, hljómborðsleikari og söngkona, og Sólveig Erla Baldvinsdóttir, flautuleikari.
Gaman er að segja frá því að allar koma þær frá mismunandi stöðum en Helga er frá Akureyri, Inga er frá Blönduósi, Kolfinna frá Ólafsfirði, Margrét frá Siglufirði, Sóley frá Skagaströnd og Sólveig frá Tjörn á Skaga. Það má því segja að Menntaskólinn sé það heimili sem sameini hljómsveitina.
Síðast sigraði MA Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2018 þegar Birkir Blær Óðinsson kom sá og sigraði með lagi Screamin' Jay Hawkins, I put a spell on you,“ segir á vef MA.