Skoðun

Hvað viltu?

Jón Steindór Valdimarsson skrifar

Því getur enginn svarað nema þú.

Í aðdraganda kosninganna spurði Evrópuhreyfingin, með aðstoð Maskínu, einfaldrar spurningar sem beint var til kjósenda. Hún var þessi: Telur þú mikilvægt eða lítilvægt að á næsta kjörtímabili verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu?

Niðurstaðan var að 31,8% svaraði mjög mikilvægt og 23,3% svaraði fremur mikilvægt sem er samanlagt 55,1%. Þá svöruðu 20,6% að það væri í meðallagi mikilvægt/lítilvægt. Þau sem svöruðu fremur lítilvægt voru 9,6% og þau sem sögðu það mjög lítilvægt voru 14,8%, sem er samanlagt 24,3%.

Þegar niðurstaðan er dregin saman segja 55,1% mikilvægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu en 24,3% lítilvægt. Það eru því meira en helmingi fleiri sem telja mikilvægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu og það er að auki hreinn meirihluti.

Þessi afgerandi niðurstaða er gott veganesti fyrir þau sem setjast í ríkisstjórn á næstu vikum og raunar alla þingmenn sem átta sig á því hlutverki sínu að vinna fyrir almenning í landinu.

Ef litið er til stuðningsfólks þeirra þriggja stjórnmálaflokka, Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar, sem nú reyna að mynda ríkisstjórn, þá er meirihluti þess eindregið á því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Hjá Flokki fólksins eru 65% á því að það sé mikilvægt en 14,9% á því að það sé lítilvægt og hjá Samfylkingu eru hlutföllin 73,9% / 7,5% en hjá Viðreisn 77,8% / 5,7%.

Þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna er því borðleggjandi á kjörtímabilinu.

Evrópuhreyfingin er vettvangur allra Evrópusinna, hvar í flokki sem þeir standa, og eru öll skoðanasystkyni hvött til þess að ganga til liðs við hana og skrá sig á www.evropa.is

Höfundur er formaður Evrópuhreyfingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×