Upphaflega var áætlað að viðgerð á ljósleiðaranum tæki allt að átta klukkustundir. Atli Stefán Yngvason, samskiptastjóri Mílu, sagði rétt fyrir tólf að það tæki um sex tíma að laga bilunina. Rétt fyrir klukkan 13 var svo send tilkynning þar sem kom fram að viðgerð væri lokið og öll þjónusta komin í lag, vel á undan áætlun.
Strengurinn fór í sundur í Hrafná. Atli Stefán segir að svo virðist sem hann hafi slitnað vegna vatnavaxta í ánni. Appelsínugul veðurviðvörun var á Norðurlandi vestra vegna sunnan storms í gær.
Fréttin var uppfærð þegar tilkynnt var að búið væri að laga bilunina klukkan 12:54 þann 9.12.2024.