Innlent

Tveir frétta­menn RÚV söðla um

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Valur og Benedikt hafa starfað saman í tæp tvö ár en nú skilja leiðir.
Valur og Benedikt hafa starfað saman í tæp tvö ár en nú skilja leiðir.

Benedikt Sigurðsson og Valur Grettisson, fréttamenn á Ríkisútvarpinu, hafa ákveðið að segja skilið við fréttastofu RÚV. Annar er hættur en hinn að vinna sínar síðustu vaktir. Þeir hófu störf á svipuðum tíma í ársbyrjun 2023.

Valur gekk á dögunum til liðs við Heimildina eftir að hafa starfað í Efstaleiti í tæplega tvö ár. Þar áður var hann um árabil ritstjóri The Reykjavík Grapevine. 

Benedikt Sigurðsson kveður nú RÚV í annað skipti en hann starfaði í Efstaleiti upp úr aldamótum áður en hann færði sig yfir til Kaupþings í aðdraganda hrunsins. Þá var hann aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um tíma, bæði þegar Sigmundur var formaður Framsóknarflokksins og svo forsætisráðherra.

Benedikt vildi í samtali við Eirík Jónsson ekki tjá sig um ástæður brotthvarfsins eða hvað væri fram undan. Þetta væri orðið gott í bili. Benedikt var á vettvangi í Mýrdalshreppi í kvöldfréttum RÚV þar sem hann var að fjalla um rafmagnsleysi í sveitarfélaginu.

RÚV hefur auglýst eftir fréttamanni til starfa á fréttastofunni.

Fleiri vistaskipti eiga sér stað í Efstaleiti um þessar mundir en Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps, hefur ákveðið að láta af störfum um áramót eins og Vísir greindi frá í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×