Fótbolti

Segir Ronaldo byrja á nýjum matar­kúr svo hann geti spilað á HM 2030

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo er ekkert að fara að hætta í landsliðinu nærri því strax ef marka má gamlan liðsfélaga hans.
Cristiano Ronaldo er ekkert að fara að hætta í landsliðinu nærri því strax ef marka má gamlan liðsfélaga hans. Getty/Octavio Passos

Cristiano Ronaldo er markahæsti leikmaður allra tíma í fótboltanum og hann er hvergi nærri hættur ef marka má fyrrum liðsfélaga hans hjá Manchester United og portúgalska landsliðinu.

Samkvæmt Nani þá er nokkuð öruggt að Cristiano Ronaldo spili á HM 2026 því hann sé þegar farinn að stefna á HM 2030.

Ronaldo heldur upp á fertugsafmælið í febrúar næstkomandi. Hann verður 41 árs þegar næsta heimsmeistaramót fer fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó árið 2026 en hann verður orðinn 45 ára þegar heimsmeistaramótið fer fram 2030.

Heimsmeistaramótið 2030 fer einmitt fram í Portúgal en landið heldur mótið ásamt nágrönnum sínum Spáni og Marokkó.

„Cristiano Ronaldo á HM 2030? Hann er að byrja á nýjum matarkúr svo hann verði tilbúinn,“ sagði Nani.

Það er ekki aðeins möguleikinn á því að keppa á sjöunda heimsmeistaramótinu fyrstur allra karla eða að keppa á HM á heimavelli heldur gæti farið svo að í portúgalska liðinu verði einnig sonur hans.

Cristiano Ronaldo yngri fæddist 17. júní 2010 og verður því nítján ára gamall þegar mótið fer fram eftir tæp sex ár.

Ronaldo hefur þegar tekið þátt í fimm heimsmeistaramótum (2006, 2010, 2014, 2018, 2022) og skoraði á þeim 8 mörk í 22 leikjum. Hann er fjórði leikjahæsti leikmaður HM frá upphafi á eftir þeim Lionel Messi (26), Lothar Matthäus (25) og Miroslav Klose (24).

Þetta er eflaust sagt meira í gamni en alvöru hjá Nani en menn hafa fyrir löngu lært það að vanmeta ekki Ronaldo.

Kapppinn er búinn að skora 43 mörk í 51 leik á árinu fyrir félagslið og landslið. Sjö af þessum mörkum skoraði hann fyrir landsliðið en hann bætir heimsmetið yfir flest mörk með hverju marki.

Ronaldo hefur alls skorað 135 mörk í 217 landsleikjum og samtals 916 opinber mörk á öllum fótboltaferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×