Dregið var í riðla fyrir undankeppnina í gær og endaði Ísland í fjögurra liða riðli með Aserbaísjan, Úkraínu og svo sigurliðinu úr einvígi Frakklands og Króatíu sem mætast í 8-liða úrslitum Þjóðadeildarinnar í mars.
Fyrsti leikur Íslands í keppninni, sem jafnframt kemur til með að verða fyrsti mótsleikur liðsins á nýju, blönduðu grasi eftir framkvæmdir á Laugardalsvelli sem nú standa yfir, verður við Aserbaísjan 5. september.
Aserar eru fyrir fram lakasta liðið í riðlinum enda í 117. sæti heimslistans, neðar en til að mynda Kasakstan, Armenía og Kósovó, sem Ísland mætir í Þjóðadeildarumspili í mars. Eini leikur Íslands við Asera til þessa er vináttulandsleikur á Íslandi 2008, þar sem liðin gerðu 1-1 jafntefli.
Úrslitaleikur við Úkraínu í lokin?
Ísland sækir svo annað hvort Frakkland eða Króatíu heim í seinni leik sínum í september, áður en við taka tveir heimaleikir í október þar sem búast má við stjörnum úr úkraínska liðinu og annað hvort því franska eða króatíska. Undankeppninni lýkur svo með tveimur útileikjum í nóvember.
Óljóst er hvar síðasti leikur íslenska liðsins, útileikurinn við Úkraínu, verður því Úkraínumenn hafa spilað heimaleiki sína víða vegna stríðsins við Rússa. Úrslitaleikur Úkraínu og Íslands í mars síðastliðnum, um sæti á EM, fór til að mynda fram í Wroclaw þar sem Úkraína vann torsóttan 2-1 sigur.
Leikurinn við Úkraínu gæti ráðið úrslitum um möguleika Íslands á að komast á HM, en efsta lið riðilsins kemst beint á mótið og liðið í 2. sæti fer í umspil.
Undankeppni HM 2026, spiluð haustið 2025:
Föstudagur 5. sept: Ísland – Aserbaísjan
Þriðjudagur 9. sept: Fra/Kró – Ísland
Föstudagur 10. okt: Ísland – Úkraína
Mánudagur 13. okt: Ísland – Fra/Kró
Fimmtudagur 13. nóv: Aserbaísjan – Ísland
Sunnudagur 16. nóv: Úkraína – Ísland