Enski boltinn

Jóla­gleði Liverpool hætt vegna fíkni­efna

Sindri Sverrisson skrifar
Jólin nálgast í Liverpool og verður liðið sennilega á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar þau verða hringd inn.
Jólin nálgast í Liverpool og verður liðið sennilega á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar þau verða hringd inn. Getty/Clive Brunskill

Jólagleði starfsfólks enska knattspyrnufélagsins Liverpool var stöðvuð, fyrr en ella, eftir að áhöld til fíkniefnaneyslu fundust inni á snyrtingu.

Jólagleðin var haldin á fimmtudagskvöld í Dómkirkjunni í Liverpool, þar sem um 500 starfsmenn Liverpool skemmtu sér innan um jóla- og Liverpool-tengdar skreytingar.

Daily Mail greindi fyrst frá því að óvænt hefði þurft að hætta gleðskapnum eftir að áhöld til fíkniefnaneyslu fundust. Þau komu í ljós þegar öryggisverðir skönnuðu svæðið, eftir að upp kom bráðatilfelli. Mail segir að á salernum hafi fundist fjöldi tómra poka eins og notaðir séu til að geyma fíknefni í.

Jólagleðin fyrir fólkið sem stendur á bakvið Liverpool-liðið, sem trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og Meistaradeildar Evrópu, tók því skjótan enda. Talsmaður félagsins sagði:

„Við líðum það ekki að fíkinefna sé neytt hvar sem þetta félag kemur saman. Við þökkum öryggisliði staðarins fyrir að bregðast hratt og fagmannlega við því bráðatilfelli sem kom upp, sem var ótengt þessu. Sá starfsmaður er á góðum batavegi.“

Arne Slot og hans menn ættu hins vegar að vera eldhressir og klárir í slaginn við Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag, en leikurinn hefst klukkan þrjú. Með sigri tryggja Liverpool-menn, sem eiga frestaðan leik sinn við Everton til góða, það að þeir verði á toppi ensku úrvalsdeildarinnar á jóladag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×