Thelma var kjörin fimleikakona ársins hjá Fimleikasambandi Íslands á dögunum. Hún vann til gullverðlauna í öllum fjórum greinunum sem keppt var í á Norður-Evrópumótinu, varð sú fyrsta til að gera nýja æfingu á stórmóti þegar hún sópaði til sín þremur titlum á Íslandsmótinu, auk þess að verða bikarmeistari með félagi sínu Gerplu og Norðurlandameistari með íslenska landsliðinu.
„Eftir hverju er farið, þegar afrek íþróttamanna eru metin?“ skrifar Sigmundur Steinarsson á Facebook síðu sinni. Hann býr yfir áratuga reynslu sem íþróttafréttamaður og hefur skrifað fjölda bóka um íþróttir.

„Ég tel það „ótrúlegt afrek“ að hægt sé að gleyma bestu íþróttakonu/manni landsins undanfarin ár, þegar valinn er Íþróttamaður ársins 2024. Thelmu er sárt saknað á listanum yfir 10 bestu íþróttamenn Íslands. Fyrirgefðu Thelma!“ skrifaði hann einnig.
Thelma var ekki í hópi þeirra sex kvenna sem tilnefndar voru sem Íþróttamaður ársins. Hún var ein af fimm sem var tilnefnd í fyrra en ekki núna. Meira má finna um tilnefningarnar hér fyrir neðan.