Sakamálin sem skóku þjóðina Jón Þór Stefánsson skrifar 28. desember 2024 07:15 Fréttir af sakamálum voru gríðarlega margar á árinu sem nú er að líða. Vísir/Grafík Gríðarlega mörg sakamál voru til umfjöllunar hér á landi árið 2024. Sjö manndrápsmál komu upp á árinu, þar sem samanlagt átta létu lífið. Af þessum átta voru þrjú mál þar sem barn lést. Einnig var mikið um stunguárásir og umfangsmikil þjófnaðarmál. Þá var nokkuð um mál sem grunur er um mansal Þar að auki þurftu dómstólarnir að takast á við sakamál sem komu upp árin á undan. Mörg þessara máli fönguðu athygli þjóðarinnar. Hér að neðan verður fjallað um helstu sakamál ársins, bæði þau sem komu upp á árinu og eru jafnvel enn óleyst, sem og mál sem hafa komið upp á síðustu árum, en fengu niðurstöðu fyrir dómi á þessu ári, hvort sem það Líkt og áður segir komu mjög mörg mál við sögu á þessu ári, og því mörg merkileg sem og alvarleg mál sem komust ekki í þessa samantekt. Úr átta ára fangelsi í sýknu Í byrjun janúarmánaðar var hinn 37 ára gamli Steinþór Einarsson dæmdur í átta ára fangelsi fyrir manndráp á Ólafsfirði í október 2022. Það var héraðsdómur Norðurlands eystra sem komst að þessari niðurstöðu. Steinþóri var gefið að sök að svipta hinn 47 ára gamla Tómas Waagfjörð lífi með því að stinga hann tvisvar í síðuna. Steinþór vildi meina að um neyðarvörn hefði verið að ræða. Tómas hefði fyrst ráðist á sig með stórum hníf. Aðalmeðferð málsins í héraði fór fram í desember 2023. Þar var Steinþór spurður út í ummæli sem hann átti að hafa viðhaft um Tómas um hálftíma fyrir dauða hans, en hann á að hafa sagt að hann væri alveg við það að „drepa þennan hobbita.“ Steinþór sagði það hafa verið sagt í gríni, en hann hefði verið orðinn þreyttur á ofbeldi Tómasar í garð eiginkonu hans og vinkonu sinnar. „Þetta væri hálf illa skipulagt morð ef ég væri að ræða það hálftíma fyrir það,“ sagði hann. „Ég á það til að tala svolítið ýkt.“ Málinu var áfrýjað til Landsréttar, en þar var Steinþór sýknaður í lok október. Það var niðurstaða Landsréttar að honum hefði verið heimilt að beita neyðarvörn þegar hann hefði verið að afstýra stórhættulegri árás Tómasar. „Við hljótum að gera þá kröfu til íslenska löggjafar og dómstóla að þeir fallist á það að fólk megi verja hendur sínar við þessar aðstæður. Ég segi það fullum fetum: Ef þessi ákvæði um neyðarvörn eiga ekki við í þessu tilfelli þá eiga þau aldrei við. Þá getum við alveg eins sleppt því að hafa þau í lögum,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Steinþórs, í kjölfarið. Taldi sjálfan sig fórnarlamb árásar Að morgni laugardagsins 20. janúar var greint frá því að karlmaður á þrítugsaldri væri í lífshættu eftir að hafa verið stunginn í vesturbæ Reykjavíkur um nóttina. Jafnframt kom fram að karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn grunaður um árásina. Sá handtekni, sem heitir Örn Geirdal Steinólfsson, var síðar ákærður og fór aðalmeðferð málsins fram í september. Honum var gefið að sök að stinga hinn manninn tvisvar, annars vegar í öxl og hins vegar í síðuna. Sá sem var stunginn hafði verið á ferð með vinkonu sinni. Þau hafa sagst hafa verið á göngu á leið heim úr miðbænum þegar þau veittu árásarmanninum athygli. Hann hafi verið að ganga á miðri götu og að þeirra mati stefnt sjálfum sér í hættu. Örn lýsti sjálfum sér sem venjulegum manni þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi og sagði daginn í aðdraganda árásarinnar hafa verið ósköp hefðbundinn. Hann hafi verið heima um kvöldið, borðað kvöldmat með fjölskyldunni, og farið snemma að sofa. „Af einhverri ókunnugri ástæðu virðist ég hafa farið á fætur og farið í vinnuföt sem ég hafði verið í um daginn,“ sagði Örn og útskýrði að í vinnubuxunum hafi verið lítill svartur vasahnífur sem hann væri búinn að eiga í mörg ár. Hann hafi síðan farið á bar, en hann sagðist ekki muna mikið eftir því. Þar hefði hann líklega fengið sér einn drykk og síðan haldið heim á leið. Hann taldi sjálfur að ráðist hefði verið á sig, hann ætti einhverjar óljósar minningar um það. Þá myndi hann eftir „dökkri veru“ standa yfir sér og stúlku sem hafi verið öskrandi. „Þetta var óljós og hrikaleg upplifun eftir það, eitthvað sem venjulegir menn eiga ekki að venjast,“ sagði Örn, sem taldi að hann hefði ekki framið árásina. „Að ég sé að fara í fangelsi, það er mér alveg óskiljanlegt.“ Örn var í október dæmdur í sex ára fangelsi vegna málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá var honum gert að greiða manninum sem hann stakk 2,2 milljónir króna. Dæmd vegna andláts sex ára barns Þann 31. janúar var greint frá því að andlát sex ára barns í Kópavogi væri til rannsóknar hjá lögreglu. Næstu daga var greint frá því að barnið hefði dáið í heimahúsi við Nýbýlaveg, og að móðir þess, sem var handtekin, væri grunuð um að verða því að bana. Í apríl var konan ákærð fyrir að reyna að bana syni sínum með því að kæfa hann með kodda. Hún var einnig ákærð fyrir tilraun til að bana eldri syni sínum sem var ellefu ára, líka með því að kæfa hann með kodda. Eldri drengurinn hafi hins vegar vaknað og náð að losa sig úr taki móður sinnar. Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í september. Þinghaldið var lokað fjölmiðlum. Konan, sem er á fimmtugsaldri, var dæmd í átján ára fangelsi í nóvember. Það var niðurstaða dómsins að hún hefði verið þjökuð af alvarlegu þunglyndi en ekki verið geðveik. Fram kom í dómnum að hún hefði sjálf tilkynnt lögreglu um málið með því að hringja á neyðarlínuna. Aðspurð í símann hvað hefði gerst sagði hún að sonur sinn hefði dáið. Hann væri kaldur viðkomu og andaði ekki. Eldri sonur hennar hefði farið í skólann og vissi ekki hvað hefði gerst. Þegar lögregluna bar að garði hefði konan opnað fyrir þeim og fylgt þeim í íbúð hennar. Lögreglumönnum þótti hún ákaflega róleg miðað við aðstæður. Þá hefði hún sýnt þeim með látbragði hvernig hún hefði kæft son sinn. Hinn sonurinn hafði, líkt og konan sagði, farið í skólann. Drengurinn tjáði lögreglunni frá því að hann hefði vaknað um nóttina við það að hún hafi haldið fyrir vit hans. Honum hafi tekist að losa sig. Þá hafi móðirin spurt hann hvort hann vildi ekki deyja áður en hann næði tilteknum aldri, því þá færi hann í góða heiminn. Hann hafi neitað því. Síðan hafi drengurinn sofnað aftur, en morguninn eftir hafi móðirin tilkynnt honum um að yngri bróðir hans væri veikur. Þrír dómkvaddir matsmenn voru sammála um að konan hefði ekki verið geðveik heldur alvarlega þunglynd. Tveimur vikum eftir atburðina hefði hún greint frá því að hún hefði heyrt raddir, en hún hafði áður neitað fyrir það. Því töldu matsmennirnir að um eftiráskýringar væri að ræða. Konan hefur áfrýjað málinu til Landsréttar, en hefur krafist sýknu vegna ósakhæfis. Aðalmeðferð hryðjuverkamálsins fór loksins fram Aðalmeðferð hryðjuverkamálsins svokallaða fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur um nokkurra daga skeið í febrúar. Í málinu voru tveir ungir menn, Sindri Snær Birgisson, 26 ára, og Ísidór Nathansson, 25 ára, ákærðir fyrir skipulagningu hryðjuverka. Þeir voru handteknir í september 2022, og voru ákærðir í desember sama ár. Mikið rót var á málinu, sem fólst meðal annars í því að gefa þurfti út aðra ákæru, og því fór aðalmeðferðin ekki fram fyrr en á þessu ári. Sindri var ákærður fyrir tilraun til að skipuleggja hryðjuverk, en Ísidór var ákærður fyrir hlutdeild í því. Þeir voru einnig ákærðir fyrir vopnalagabrot, sem þeir játuðu báðir að hluta, en þeir neituðu alfarið fyrir að hafa ætlað að fremja hryðjuverk. Málið varðaði að miklu leyti samskipti mannanna á dulkóðaða samskiptamiðlinum Signal. Þar töluðu þeir um ýmis ódæðisverk, líkt og hryðjuverk Anders Behring Breivik, sem drap tugi manna á Útey og í Osló 2011. Sindri sagði fyrir dómi að þeir hefðu báðir mjög svartan húmor og að engin alvara hefði verið á bak við þessar samræður þeirra. Hann sagðist til að mynda hafa verið að drekka í tvo sólarhringa á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þegar hann sendi Ísidór skilaboð um að hann hefði verið á grensunni með að fremja fjöldamorð. „Ég vil meina að flest þau vandamál sem íslenskt samfélag finnur fyrir séu utanaðkomandi, innflutt,“ sagði Ísidór fyrir dómi þegar hann var spurður út í ein af fjölmörgum ummælum sínum á Signal. „Ég er ekki hefðbundinn teiknimyndarasisti, sem mismunar fólki eftir húðlit. Besti vinur minni í æsku var svartur.“ Fjölmargir báru vitni fyri dómi. Unnusta Ísidórs sagði hann eiga það til að vera orðljótur og gera sig stórkarlalegan fyrir framan vini sína. Hann væri þó ekki ofbeldisfullur og hefði aldrei talað af alvöru um að beita ofbeldi. Þá gekkst hún við því að nasistafáni hefði fundist á heimili þeirra. Geðlæknir sem var fenginn til að framkvæma geðmat á Sindra og Ísidór sagði þá báða hafa talað opinskátt um orðræðuna sem fór þeim á milli, og þeir sæju eftir því þeir sem þeir sögðu. „Ljóst er að yfirgnæfandi þorri galgopalegrar orðræðu ungra manna leiðir ekki til neinna framkvæmda, það er óskaplega mikil undantekning,“ sagði hann aðspurður út í hversu mikið væri að marka það sem þeir sögðu sín á milli. Verkefnastjóri hjá Europol sem skoðar hryðjuverk hægrisinnaðra öfgamanna gaf líka skýrslu. Sá sagðist handviss um að lögreglan hefði komið í veg fyrir hryðjuverk með handtöku mannanna. Sindri og Ísidór voru í mars sýknaðir af ákærum sem vörðuðu skipulagningu hryðjuverka, en voru sakfelldir fyrir vopnalagabrot. Sindri fékk tveggja ára fangelsisdóm og Ísidór átján mánuði. Í dómi héraðsdóms sagði að ákveðnar líkur væru á því að Sindri hefði haft einhvers konar illvirki í huga, en ekki lægi nákvæmlega fyrir hvert skotmark hans hefði orðið, hvar eða hvenær. Þó hefði ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að hann hafi ætlað að fremja hryðjuverk. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar. Kom sjálfviljugur til landsins og fékk átta ára dóm Um miðjan febrúar lýsti Interpol eftir íslenskum karlmanni, honum Pétri Jökli Jónassyni. Lögreglan sagðist ekki vita hvar hann væri staddur. Um tíu dögum eftir að Pétur Jökull var eftirlýstur kom hann sjálfur til Íslands með flugi frá Evrópu. Hann var handtekinn á Keflavíkurflugvelli við lendingu og svo úrskurðaður í gæsluvarðhald. Pétur Jökull var grunaður um aðild að stóra kókaínmálinu svokallaða, sem varðaði innflutning á 99 kílóum af kókaíni til landsins árið 2022. Efnin voru flutt inn í timburdrumbum frá Brasilíu, en voru gerð upptæk í Rotterdam og skipt út fyrir gerviefni. Áður höfðu fjórir menn hlotið á bilinu níu til fimm ára fangelsisdóma í málinu. Í kjölfar komu Péturs Jökuls til landsins var hann ákærður fyrir sinn þátt og aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst, en þar neitaði hann alfarið sök. Seinna í sama mánuði komst dómurinn að niðurstöðu og dæmdi Pétur í átta ára fangelsi. Í dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að Pétur hefði fengið Daða Björnsson, sem hlaut fimm ára dóm í málinu á sínum tíma, til verksins, stýrt honum, útvegað honum fjármuni og síma til að fremja sitt brot. Þá hefði hann verið í samskiptum við Birgi Halldórsson, sem hlaut níu ára dóm í málinu, og þeir verið með hina þrjá sakborningana undir sér. Pétur Jökull hefur áfrýjað málinu til Landsréttar. Grunaður í umfangsmiklu mansalsmáli Lögreglan lagðist í umfangsmiklar aðgerðir víða um land þann 5. mars vegna gruns um mansal, peningaþvætti, og skipulagða glæpastarfsemi tengdum fyrirtækjum Quangs Le, sem þá hét reyndar Davíð Viðarsson. Umrædd fyrirtæki voru meðal annars Vy-þrif, Pho Víetnam og Wok On. Mánuðina áður hafði starfsemi þessara fyrirtækja verið til umfjöllunar. Þar má sérstaklega minnast á matvælalager Vy-þrifa þar sem tuttugu tonnum af matvælum var fargað eftir að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur komst á snoðir um rottugang í húsnæðinu. Greint var frá því að mikið magn rottuskíts hefði verið á svæðinu. Jafnframt fannst dýna í geymslunni sem þótti til marks um að fólk hefði þurft að sofa í henni. Í lok síðasta árs kærði heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrirtækið til lögreglu. Í aðgerðunum 5. mars voru átta handteknir og gaf lögreglan út að hún teldi tugi vera þolendur mansals í málinu. Þeim hefur síðan fjölgað, en í júní var greint frá því að þeir væru orðnir tólf. Þar af eru nokkrir með fjölskyldutengsl við Quang Le. Hann var sjálfur í gæsluvarðhaldi þangað til um miðjan júní. Greint hefur verið frá því að grunur sé um að Quang Le hafi þegið greiðslur frá víetnömsku fólki fyrir aðstoð við að koma þeim til landsins. Þá sé talið réttindi starfsfólks fyrirtækja hans hafi verið brotin, það unnið allt of langa vinnudaga og fengið lítið frí. Einnig sé grunur um að folk hafi þurft að greiða hluta launa sinna aftur til vinnuveitenda. Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Quangs Le, hefur gagnrýnt meðferðina sem umbjóðandi hans hefur mátt þola. Hann hefur sagt að íslenskir sakborningar hefðu ekki þurft að þola annað eins. „Venjulega eru mál rannsökuð, svo er dæmt og menn sekir eða sýknaðir eftir atvikum. Og taka þá afleiðingum gjörða sinna. Hann hefur verið gersamlega knésettur áður en nokkuð af þessu liggur fyrir. Hann er þegar farinn að taka afleiðingum áður en dæmt er. Það er búið að hafa af honum öll viðskipti, félög hans knúin í gjaldþrot, búið að loka á öll bankaviðskipti … hann er að verða fyrir tjóni sem nemur hundruðum milljóna,“ sagði Sveinn Andri. „Ég er ekki ógnandi maður“ Um mitt sumar heltók mál eins manns þjóðina. Þá mætti Mohamad Kourani, sem nú heitir Mohamad Th. Jóhannesson, fyrir dóm og svaraði fyrir ákæru um stunguárás sem honum var gefið að sök að hafa framið í OK Market í Valshverfinu í mars. „Ég kann ekki að gera árás með hníf. Ég er ekki ógnandi maður. Ég er bara venjulegur maður. Ef þið haldið mér áfram í fangelsi þá verður vandamál,“ sagði Mohamad í Héraðsdómi Reykjaness. Hann var ákærður fyrir að stinga tvo menn í búðinni, og fyrir önnur brot líkt og fyrir að hóta lögreglumanni og fjölskyldu hans lífláti, og kasta hlandi á fangaverði. Tvö myndbönd sem sýna árásina voru sýnd fyrir dómi, en Mohamad sagðist ekki kannast við það að árásarmaðurinn á myndbandinu væri hann sjálfur. „Þetta er ekki ég,“ sagði hann og hló. Annar þeirra sem varð fyrir árásinni sagði Mohamad ítrekað hafa hótað honum og fjölskyldu hans lífláti. Fjölskylda hans hafði flutt úr landi til Dubai vegna hans. „Ef þessi maður kemst út úr fangelsi mun hann drepa barnið mitt eða barn dómarans. Hann mun gera allt,“ sagði hann. Hann var dæmdur í átta ára fangelsi vegna árásarinnar og annarra brota. Greint var frá því að stunguárásin í OK Market væri ekki eina sakamálið sem Mohamad væri viðloðinn. Til að mynda hefði hann hrellt Helga Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknara um nokkurra ára skeið og hlotið dóm fyrir. Hann kom hingað til lands árið 2018 og fékk þá alþjóðlega vernd. Viku eftir árásina í OK Market var Mohamad dæmdur til fjórtán mánaða fangelsisvistar fyrir fjölda brota, líkt og að hrinda manni sem reyndi að róa hann niður eftir að starfsmaður Frumherja neitaði að veita honum ökuréttindi án þess að hann tæki bílpróf. Hann var einnig sakfelldur fyrir að senda sprengjuhótanir, umferðarlagabrot og að hafa hrækt á lögregluþjón á lögreglustöð. „Þetta er auðvitað klikkun, maðurinn er algjörlega stjórnlaus og þetta er með ólíkindum. Það er ekki huggulegt að eiga það yfir höfði sér að hann banki uppá hjá börnunum manns. það gefur augaleið,“ sagði Helgi í viðtali við Vísi um Mohamad. Dularfullur þjófnaður í Hamraborg Á meðan starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar voru inni á Catalinu í Hamraborg í Kópavogi að sækja pening út spilakössum þann 25. mars síðastliðinn brutust tveir menn inn í bíl þeirra og höfðu á brott með sér tuttugu til þrjátíu milljónir króna. Myndskeið af atvikinu sýnir hvernig mennirnir bakka Toyotu Yaris-bíl sínum að sendiferðabíl Öryggismiðstöðvarinnar, brjótast inn í bílinn, færa peningatöskur yfir í eigin bíl og bruna svo í burtu. Þetta tók minna en mínútu, en nokkrar mínútur liðu þangað til upp komst um þjófnaðinn. Í kjölfarið var lýst eftir dökkgráum Toyota Yaris, sem reyndist síðar hafa verið með tvær mismunandi númeraplötum sem hafði verið stolið af öðrum ökutækjum. Daginn eftir þjófnaðinn fundust töskur í Mosfellsbæ á þremur mismunandi stöðum, en öll verðmæti höfðu veri tekin úr þeim. Í heildina var sjö töskum stolið en einungis voru verðmæti í tveimur þeirra. Litasprengjum hafði verið komið fyrir í töskunum til að eyðileggja verðmætin myndi einhver reyna að opna þær. Óvíst er hve stór hluti fjárins eyðilagðist vegna þessara sprengja, en talið er að töskurnar hafi verið opnaðar með slípirokk. Jafnframt lýsti lögreglan eftir tveimur mönnum daginn eftir þjófnaðinn. Á mynd sem lögreglan sendi fjölmiðlum sáust mennirnir tveir keyrandi um á Toyota Yaris bíl. Andlit þeirra sáust ekki að fullu. Í maí var íslenskur karlmaður um fertugt úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við þjófnaðinn. Greint var frá því að litaðir seðlar hefðu ratað í spilakassa á vegum Happdrætti Háskólans nokkrum dögum áður. Maðurinn var látinn laus rúmri viku seinna, en var þó enn sagður grunaður í málinu. Í lok nóvember var greint frá því að málið hefði verið sent til ákærusviðs. Þá kom fram að einn væri með stöðu sakbornings, en ekki var upplýst hvort hann væri grunaður um að fremja sjálfan þjófnaðinn eða einhvers konar aðild að málinu. Talin hafa haldið manni föngum um nokkurra daga skeið Grunur er um að þrír einstaklingar hafi um nokkurra daga skeið, frá 19. apríl til 22. apríl, haldið maltneskum manni föngum og fjárkúgað hann í Reykholti í Biskupstungum. Lögregla hóf rannsókn á málinu þegar henni barst tilkynning um að óttast væri um heilsu og afdrif mannsins. Tveimur dögum seinna fékk lögregla upplýsingar um að maðurinn væri fundinn í Möltu, illa haldinn og með áverka víðsvegar um líkamann, sem væru sumir alvarlegir. Maðurinn hefur lýst hrottafenginni meðferð af hálfu fólksins. Þau hafi ruðst inn á heimili hans að kvöldi föstudagsins 19. apríl, ráðist á hann með margvíslegu líkamlegu ofbeldi, líkt og hnúajárnum. Þá hafi þau sparkað í hann og kýlt víðs vegar um líkamann. Maðurinn sagðist hafa verið bundinn á höndum og fótum, látinn liggja löngum stundum á sturtugólfi þar sem köldu vatni hafi verið bunað yfir hann. Þar að auki hafi hann verið sveltur. Markmið fólksins hafi verið að fá hann til að gefa upp aðgangsorð á bankareikninga hans, svo hægt væri að hafa af honum fé. Fólkið hafi flutt hann nauðugan og stórslasaðan upp á flugvöll og gerðu honum að yfirgefa landið. Honum hafi verið hótað að fjölskyldu hans yrði gert mein ef hann myndi leita aðstoðar. Hann hafi því farið úr landi með flugi til Möltu án þess að gera nokkrum viðvart, en hann hafi misst meðvitund fljótlega eftir komuna til landsins. Í fyrstu voru fjórir Íslendingar handteknir vegna málsins. Það voru karlmaður á áttræðisaldri, dóttir hans og tengdasonur um þrítugt, og bróðir tengdasonarins. Eitt af öðru var þetta fólk látið laust úr haldi. Haft var eftir íbúum í Reykholti og Laugarási að maltneski karlmaðurinn hefði búið og starfað þar til fleiri ára. Þau báru honum vel söguna. Hann var sagður mjög vænn og nægjusamur maður. Sökum nægjusemi sinnar hafa komið sér upp einhverjum sjóði. Sakborningarnir eru grunaðir um að hafa reynt að sækja í þann sjóð. Sólheimajökulsmálið Skemmtiferðaskipið AIDAsol lagðist við bryggju hér á landi 11. apríl síðastliðinn. Um borð voru tveir menn með 2,2 kíló af kókaíni meðferðis sem þeir földu í eldhúspottum. Annar þeirra mun hafa afhent þriðja manninum efnin. Sá var í kjölfarið handtekinn. Lögreglan lagðist í kjölfarið í umfangsmiklar aðgerðir þar sem ráðist var í margar leitir á höfuðborgarsvæðinu og tugir handteknir. Þessi innflutningur er í raun einungis einn angi Sólheimajökulsmálsins svokallaða, sem fær nafn sitt frá spjallhópi þar sem hópur fólks skipulagði árshátíðarferð þar sem lagt var til að fara á Sólheimajökul. Sakborningar málsins voru jafnframt ákærðir fyrir að standa í umfangsmikilli skipulagðri brotastarfsemi. Upphaflega voru átján ákærðir í málinu, en nokkrir játuðu sök og var þeirra þáttur klofinn frá málinu. Á meðal þeirra ákærðu var Jón Ingi Sveinsson, grunaður höfuðpaur Sólheimajökulshópsins. Aðalmeðferð málsins fór fram um nokkurra daga skeið í Héraðsdómi Reykjavíkur, en þar gaf Jón Ingi þrisvar sinnum skýrslu. Gögn lögreglu byggðu á samskiptum á forritinu Signal og upptökum á símtölum. Jón Ingi vildi meina að einhverra þeirra gagna hefði verið aflað með ólöglegum hætti þar sem heimild hafi ekki legið fyrir um að taka upp símtöl hans á erlendri grundu. „Ég ætla ekki að svara fyrir þetta. Ég ætla ekki að ræða ólöglegar upptökur,“ sagði Jón Ingi. Lögmaður hans, Björgvin Jónsson, tók í sama streng: „Þetta eru ólögleg gögn. Þetta gæti þess vegna verið búið til með aðstoð gervigreindar,“ Varðandi innflutninginn með AIDAsol viðurkenndi Jón Ingi að hafa átt þátt í málinu. Hann kannaðist þó ekki við að skipuleggja hann, líkt og hann var ákærður fyrir. Jón Ingi sagðist hafa komið inn í málið þegar sakborningarnir sem voru í skipinu voru farnir erlendis. Honum hafi verið boðið að kaupa helming efnanna sem þarna voru, en hann taldi það vera 750 grömm. „Ég tek alveg á mig það sem ég gerði, en hitt er ekki ég.“ Í byrjun mánaðar var kveðinn upp dómur í málinu. Jón Ingi var dæmdur í sex ára fangelsi. Haukur Ægir Hauksson og Gunnlaugur J. Skarphéðinsson fengu báðir fimm ára dóm og þeir Pétur Þór Guðmundsson og Árni Stefán Ásgeirsson hvor um sig fjögurra ára dóm. Jafnframt voru Valgerður Sif Sigurðardóttir, Tinna Kristín Gísladóttir, Thelma Rún Ásgeirsdóttir og Andri Þór Guðmundsson dæmd í þriggja ára fangelsi. Aðrir sakborningar fengu vægari dóma sem voru skilorðsbundnir að mestu leyti. Ákærður vegna andláts manns í sumarhúsi Fjórir voru handteknir vegna grunns um manndráp í sumarhúsi í Kiðjabergi í Árnessýslu þann 20. apríl síðastliðinn. Hinn látni og þessir fjórir sem voru handteknir eru allir litháskir karlmenn. Mennirnir voru í sumarhúsabyggðinni á vegum verktakafyrirtækis. Lögreglu barst tilkynning um meðvitundarleysi í bústaðnum og fljótlega eftir komu viðbraðgsaðila á vettvang var einn einstaklingur úrskurðaður látinn. Fram hefur komið að augljósir áverkar á líkinu hafi strax gefið lögreglu vísbendingu um að sakamálarannsóknar þyrfti við. Tveir þessara fjórmenninga voru í upphafi undir sérstökum grun, en þeir eru taldir hafa verið þeir einu sem voru í sama húsi og hinn látni þegar hann lést. Líklega hafi þeir tveir verið þeir síðustu sem hinn látni átti í beinum samskiptum við. Annar þessara tveggja greindi frá því að hann hafi orðið var við ágreining milli hins mannsins og hins látna. Síðan hafi hann komið að hinum látna liggjandi á gólfi aðalrýmis sumarhússins. Hann hafi haft talsverðar áhyggjur vegna þess og taldi að hinn látni þyrfti nauðsynlega að komast undir læknishendur, og hann hafi meðal annars hringt í yfirmenn sína og tjáð þeim áhyggjur sínar. Hinn maðurinn neitar sök og hefur haldið sakleysi sínu staðfastlega fram og neitað því að hafa valdið áverkunum á líkinu. Hann hefur þó viðurkennt að hafa ráðist á hinn látna í aðdraganda andlátsins. Sá maður hefur verið ákærður í málinu. Hann er ekki ákærður fyrir manndráp heldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem leiddi til dauða. Áralangt heimilisofbeldi í aðdraganda andlátsins Tveimur dögum eftir að málið í Kiðjabergi kom upp á Suðurlandi hóf lögreglan á Norðurlandi eystra rannsókn á andláti konu á Akureyri. Sú fannst látin í íbúð við Kjarnagötu í Naustahverfi. Eiginmaður konunnar var handtekinn grunaður um verknaðinn. Það var hann sem hringdi í neyðarlínuna og tilkynnti að konan hans lægi á gólfinu og að hann teldi að hún væri látin. Hann sagðist hafa séð konuna lifandi fyrir um það bil fjórum til sex tímum. Hann heyrðist biðja hana fyrirgefningar. Fyrir dómi lýsti hann kvöldinu í aðdraganda andlátsins þannig að hann hafi verið að horfa á sjónvarpið. Hún hafi komið fram til hans, gengið fram hjá honum og dottið. Hann hafi rétt út hönd til að draga úr falli hennar. Hún hafi lent á hörðu undirlagi en ekki meitt sig, þá hafi þau horft saman á sjónvarpið þar til hann fór að sofa. Þegar hann vaknaði hafi konan setið á stól í stofunni með opin augu og verið orðin köld. Þessar skýringar hans á andlátinu töldust ótrúverðugar. Fyrr í þessum mánuði hlaut hann tólf ára fangelsisdóm vegna málsins. Hann var ekki sakfelldur fyrir manndráp heldur fyrir brot í nánu sambandi sem leiddi til andláts konunnar. Í dóminum var haft eftir sonum hjónanna, móður konunnar og vinkona hennar til áratuga að maðurinn hafi beitt hana alvarlegu heimilisofbeldi um árabil. Lögreglan aflaði gagna um samband þeirra og niðurstaðan var sú að líklega hefði maðurinn beitt hana heimilisofbeldi á þriðja tug ára. Tveir synir hjónanna, sem ekki hafa náð átján ára aldri, lýstu andlátinu sem ákveðnum létti. Ofbeldinu væri alla vega lokið. Fyrrverandi landsliðsmaður sýknaður Í byrjun maímánaðar var greint frá því að Kolbeinn Sigþórsson, fyrrverandi landsliðsmaður, í knattspyrnu hefði verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barnungri stúlku. Honum var gefið að sök að hafa nauðgað og brotið kynferðislega á stúlkunni með því að draga niður nærbuxur hennar og strjúka yfir kynfæri hennar fram og til baka mörgum sinnum og setja fingur í leggöng hennar. Kolbeinn var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness. Meint brot hans var sagt hafa átt sér stað að kvöldi sunnudags í júní 2022 í sumarhúsi á vegum Kolbeins. Brotaþoli málsins var vinkona barns Kolbeins. Í dómnum segir að margt sé á huldu um málið sem geti skipt máli. Til að mynda sé óljóst hvort stúlkan hafi gist eina eða tvær nætur í sumarhúsinu, og einnig sé óljóst hvort þriðja barnið hafi gist í húsinu umrædda nótt. Þá sé á reyki hvernig stúlkan fór heim úr sumarhúsinu. Móðir brotaþolans var lykilvitni í málinu, en dómnum þótti nokkrir hlutir rýra frásögn hennar. Einnig þótti framburður stúlkunnar ekki trúverðugur. Greint hefur verið frá því að ríkissaksóknari hafi ákveðið að áfrýja málinu ekki til Landsréttar. Héldu áfram þrátt fyrir að skipið væri að sökkva Skiptstjóri strandveiðibáts bjargaði manni úr öðrum strandveiðibát sem sökk norðvestur af Garðskaga aðfaranótt 16. maí. Maðurinn sem vann björgunarafrekið heitir Arnar Magnússon og hefur verið tilnefndur sem maður ársins fyrir viðbrögð sín. „Svo þegar ég kem þarna utar sé ég eitthvað sem ég hélt að væri gámur á floti, svo sé ég að þetta er bátur, ég tek hring og þegar ég kom nær og sá nafnið á bátnum þá fékk ég sting í hjartað. Þessi maður, ég hef þekkt hann í 40 ár,“ sagði Arnar í samtali við Vísi. „Svo allt í einu skýtur hann upp, hann var búinn að koma sér í flotgallann og komast út, þannig ég dröslaði honum um borð og sagði honum að slaka á.“ Um hádegisleytið daginn sem þetta gerðist var greint frá því að vísbending væri um að flutningaskip hefði hvolft bátnum. Síðdegis sama dag voru skipstjóri og tveir stýrimenn skipsins Longdawn handteknir í Vestmannaeyjum vegna málsins. Annar stýrimannanna var látinn laus í kjölfarið. Í júlí voru hinir tveir ákærðir. Degi eftir að greint var frá því fór þingfesting málsins fram þar sem þeir játuðu sök. Og daginn þar á eftir hlutu þeir dóm. Eduard Dektyarev skipstjóri hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og Alexander Vasilyev stýrimaður fékk átta mánaða skilorðsbundinn dóm. Fram kom í málinu að skipstjórinn hefði gefið fyrirmæli um að halda för skipsins áfram eftir áreksturinn þrátt fyrir að stýrimaðurinn hefði upplýst hann um áreksturinn og að hann teldi sig hafa séð bátinn sökkva. Skipstjórinn var einnig sakfelldur fyrir að vera áhrifum áfengis og fíkniefna þegar hann stjórnaði skipinu. Hann var sviptur skipstjórnarleyfi í þrjá mánuði. Skaut sex skotum að níu ára barni á jólunum Ásgeir Þór Önnuson hlaut fimm ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness í lok júní fyrir skotárás sem hann framdi á heimili í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld 2023. Hann braust grímuklæddur inn á heimili í Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og skaut sex skotum með skammbyssu að níu ára stúlku og föður hennar. Tveir samverkamenn hans hlutu vægari dóma. Annar þeirra, Breki Þór Frímannsson hlaut 30 mánaða dóm. Hinn hlaut eins árs dóm, skilorðsbundinn til þriggja ára. Ásgeir viðurkenndi að hafa ruðst inn á heimilið og hleypt af. Hann sagðist hafa gert það í þeim tilgangi einum að hræða föðurinn. Hann vildi ekki segja frá því hvers vegna hann hafi ætlað að gera það. Breki sagðist hafa vitað að Ásgeir hafi einungis ætlað að hræða föðurinn með byssunni og ef til vill berja hann aðeins. Í ákæru málsins sagði að árásin hefði verið þaulskipulögð. Ásgeir hafi greitt þriðja manninum 80 þúsund krónur fyrir að aka með þeim á vettvang. Þar hafi Ásgeir og Breki skilið símana sína eftir. Þá hafi föt til skiptanna verið í bílnum, og þeir síðan skipt um númeraplötur á bílnum. Það hafi allt verið gert til að villa um fyrir lögreglu. Níu ára stúlka gaf skýrslu í málinu. Hún sagðist hafa verið að fara út úr sínu herbergi í íbúðinni, þar sem hún hafði verið að sækja skæri til að opna pakka, þegar hún hafi séð menn, reyk og glerbrot á gólfinu. Faðir stúlkunnar hafi svo gripið hana og verið eins og „varnarskjöldur“. Barnið kvaðst hafa orðið verulega hrætt. Kvöldganga tveggja hjóna breyttist í martröð Klukkan hálfellefu að kvöldi 21. júní barst lögreglu tilkynning um alvarlega líkamsárás í Kópavogi þar sem að vopni hafði verið beitt. Greint var frá því daginn eftir að einn hefði verið handtekinn skammt frá vettvangi og að aðbúnaður lögreglunnar hafi verið mikill. Nokkrum dögum seinna kom fram að læknir á sextugsaldri hefði verið stunginn en hann hafði verið í kvöldgöngu með eiginkonu sinni og vinahjónum við Lund í Kópavogi. Grunaður árásarmaður hefði komið að þeim á rafhlaupahjóli, ekið utan í annan eiginmanninn sem missti jafnvægið. Þá hefði komið til orðaskaks á milli þeirra og árásarmaðurinn síðan hefði maðurinn framið árásina. Daníel Örn Unnarsson, þrítugur maður, var ákærður fyrir verknaðinn, að stinga lækninn að minnsta kosti fjórum sinnum í háls, síðu og nára. Hann játaði að hafa stungið lækninn en vildi meina að ekki væri um tilraun til manndráps að ræða. Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í nóvember. Þar greindi Daníel frá því að eftir áreksturinn hefði hann farið að munnhöggvast við fólkið. Hann hafi kallað eina konuna orði sem hann væri ekki stolltur af, og þá hafi læknirinn slegið hann bylmingshöggi í gagnaugað. Læknirinn neitaði því alfarið. Þá sagðist Daníel hafa tekið upp hnífinn og sveiflað honum á meðan hann hörfaði undan. Hann hafi ekki ætlað sér að stinga lækninn. „Ég sveiflaði bara hnífnum og hljóp í burtu. Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en lögreglan sagði mér frá þessu,“ sagði hann. Hinn eiginmaðurinn, vinur læknisins, hafi þá farið eftir honum á rafhlaupahjólinu, náð honum og tekið hann einhvers konar hengingartaki. Svo hafi lögreglu borið að garði og handtekið Daníel. Þessi vinur læknisins er með stöðu sakbornings fyrir að ráðast þarna á Daníel. Daníel Örn hlaut fjögurra ára fangelsisdóm í byrjun mánaðar. Að mati dómsins var atlaga hans tilraun til manndráps. Tíu ára fangelsi vegna andláts í Bátavogi Aðalmeðferð Bátavogsmálsins svokallaða fór fram um nokkurra daga skeið í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok júní. Í málinu var Dagbjörtu Guðrúnu Rúnarsdóttur, konu á fimmtugsaldri, gefið að sök að verða manni að bana þann 23. september 2023 í íbúð hennar í Bátavogi í Reykjavíkur. Hún var ákærð fyrir að beita manninn margþættu ofbeldi í aðdraganda andlátsins dagana tvo áður en hann lést. Hundur Dagbjartar, sem lést í aðdraganda andláts mannsins, var miðlægur í málinu. Dagbjört var haldin ranghugmyndum um að maðurinn hefði átt þátt í dauða hans. Fram kom í málinu að umræddur hundur hafi verið þrettán ára gamall og líklega dáið vegna hás aldurs. Myndbandsupptökur sem voru teknar upp á vettvangi voru sýndar í dómsal við aðalmeðferð málsins. „Hundurinn minn er dáinn. Ég hef ekkert að gera en að vera leiðinleg við þig [...] þangað til þú ákveður að bæta ráð þitt,“ heyrðist hún segja í einu myndbandinu. Þá heyrðist maðurinn öskra ítrekað og í eitt skipti svaraði hún: „Hættu að öskra, hættu að öskra fíflið þitt.“ Fyrir dómi sagði Dagbjört að maðurinn hefði verið veiklulegur í aðdraganda andlátsins og hann verið sífellt dettandi. Hún taldi það líklega ástæðu mikilla áverka á líki mannsins. Réttarlæknir sagði að þau hefðu verið fá svæði á líkama mannsins þar sem ekki væru áverkar. Og að varðandi alvarlegustu áverkana væri nær ómögulegt að þeir hafi komið til fyrir slysni. Viðbragðsaðilar sem gáfu skýrslu fyrir dómi sögðu að eftir að þeir fóru á vettvang og hófu endurlífgunartilraunir á manninum hafi Dagbjört skyndilega staðið upp, arkað að hinum látna, og gefið honum kinnhest. Hún hafi sagt að hann „láti oft svona“, en lögreglumenn hafi síðan fjarlægt hana frá honum. Dagbjört hlaut tíu ára fangelsisdóm vegna málsins, en var sakfelld fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem leiddi til andláts en ekki manndráp. Í dómnum sagði að hún hefði leynt veigamiklum upplýsingum og reynt að koma í veg fyrir að hægt væri að varpa ljósi á málið. Hjón fundust látin á Neskaupstað Upp úr hádegi fimmtudaginn 22. ágúst fékk lögreglan á Austurlandi útkall vegna hjóna sem fundust látin í heimahúsi í bænum. Svo virðist sem einstaklingur, mögulega nágranni fólksins, hafi reynt að setja sig í samband við þau, en svo virst sem slökkt væri á símum þeirra. Viðkomandi hafi síðan farið að húsinu þeirra tekið eftir því að bíllinn þeirra var ekki við húsið. Fram hefur komið að hjónin hafi fundist látin á baðherbergi, og að miklir áverkar verið á þeim báðum. Lögreglan fékk upplýsingar um að sést hafi til manns, Norðfirðings á fimmtugsaldri, við hús hjónanna kvöldið áður. Skömmu seinna hafi þung bankhljóð heyrst úr íbúðinni. Leit hófst að bíl hjónanna í og í ljós kom að honum hafði verið ekið í átt að höfuðborgarsvæðinu. Norðfirðingurinn fannst blóðugur í bíl hjónanna að aka um Snorrabraut í Reykjavík. Þar var hann handtekinn af sérsveitinni, en hann mun hafa verið með ýmsa munu í eigu hinna látnu með sér, líkt og bankakort. Í skýrslutöku neitaði maðurinn sök. Hann sagðist hafa komið að hjónunum „svona“. Hann sagðist telja að þau hefðu ráðist á hvort annað, eða að einhver hefði ráðist á þau. Í upphafi fór maðurinn í gæsluvarðhald, en frá september hefur honum verið gert að vera vistaður á viðeigandi stofnun. Sautján ára stúlka lést eftir stunguárás Um hálfeittleytið aðfaranótt sunnudagsins 25. ágúst var greint frá því að lögreglan hafði verið með mikinn viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur á tólfta tímanum kvöldið á undan, þegar menningarnótt var haldin hátíðleg. Fram kom að um alvarlega líkamsárás væri að ræða. Daginn eftir var greint frá því að einn hefði verið handtekinn vegna málsins, sem varðaði stunguárás, og að þrjú ungmenni væru með áverka vegna hennar. Eitt þeirra væri með alvarlega áverka. Fram kom að allir þessir einstaklingar væru undir átján ára aldri. Um viku síðar lést hin sautján ára gamla Bryndís Klara Birgisdóttir af áverkum sínum. Andlát hennar og málið í heild sinni hefur vakið upp mikla umræðu um vopnaburð ungmenna Sextán ára drengur hefur síðan verið ákærður fyrir að verða henni að bana, og fyrir tvær aðrar tilraunir til manndráps fyrir að stinga tvö önnur ungmenni í sömu árás. Í ákærunni er atvikum málsins lýst þannig að fimm ungmenni hafi verið saman í bíl laust fyrir miðnætti á Menningarnótt. Drengurinn hafi brotið rúðu bílsins og stungið einn pilt ítrekað með hníf, bæði í öxl og brjóstkassa. Ungmennin hafi þá flúið úr bílnum en ein stúlka orðið eftir. Drengurinn hafi ráðist á hana og stungið í öxl handlegg og hendi. Að því loknu mun drengurinn hafa ráðist á Bryndísi Klöru. Honum er gefið að sök að stinga hana í gegnum hjartað. Annar landsliðsmaður sýknaður Albert Guðmundsson, einn besti knattspyrnumaður Íslands, mætti í dómsal Héraðsdóms Reykjavíkur þann 12. september síðastliðinn. Þar svaraði hann til saka vegna ákæru um nauðgun og neitaði sök. Aðdragandi aðalmeðferðar málsins var nokkur. Í ágúst 2023 var hann kærður fyrir kynferðisbrot. Héraðssaksóknari tók málið fyrir, en lét það niður falla í febrúar í ár. Ríkissaksóknari felldi síðan þá ákvörðun úr gildi og gerði héraðssaksóknara að höfða sakamál á hendur honum. Og í byrjun júlímánaðar var hann ákærður. Honum var gefið að sök að stinga fingrum í leggöng konu, sleikja kynfæri hennar, þrátt fyrir að hún hefði beðið hann um að hætta, grátið, og reynt að ýta honum af sér. Þann 10. október var dómur í málinu kveðinn upp þar sem Albert var sýknaður. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað málinu til Landsréttar. Grunaður um að verða dóttur sinni að bana Íslenskur karlmaður á miðjum fimmtugsaldri hringdi á Neyðarlínuna um kvöldmatarleytið 15. september. Hann mun hafa verið óljós í máli sínu, óskýr um hvar hann væri staddur og hvað hafði gerst, en þó tilkynnt um andlát tíu ára gamallar dóttur sinnar. Lögreglan kom á vettvang skömmu síðar, en maðurinn var staddur á hrauni gegnt Vatnsskarðsnámu við Krýsuvíkurveg. Þar var maðurinn handtekinn og þá leituðu viðbragðsaðilar að stúlkunni sem fannst skammt frá. Strax hófust endurlífgunartilraunir sem báru ekki árangur. Maðurinn, sem heitir Sigurður Fannar Þórsson, er sagður hafa bent lögreglu á hvar hún væri stödd. Eftir að málið kom upp fór á stað fyrirferðamikill orðrómur um að andlát stúlkunnar tengdist einhvers konar uppgjöri í undurheimunum. Lögreglan fylgdi eftir ábendingum á þessa leið en þótti ekkert benda til þess að aðrir kæmu að málinu en faðirinn. Sigurður Fannar hefur verið ákærður fyrir manndráp í málinu. Umfangsmikill þjófnaður í Elko Hópur fólks er grunaður um að þjófnað í tveimur verslunum raftækjarisans Elko, í Lindum og Skeifunni, sem voru framin að kvöldi 22. september og aðfaranótt 23. sama mánaðar. Þýfi málsins er sagt hlaupa á mörgum milljónum króna, en þjófarnir eru sagðir hafa haft á brot dýr tæki, síma, og reyðufé. Vitni sem var að vinna við framkvæmdir í húsnæði Elko í Lindum segist hafa farið úr vinnu klukkan fjögur síðdegis 22. september og þá hafi allt verið í lagi. Þegar hann kom daginn eftir hafi verið búið að brjóta timburhlera á glugga húsnæðisins, og jafnframt var búið væri að opna peningaskáp sem var inni í versluninni. Í fyrstu voru sjö Rúmenar, bæði karlar og konur, handteknir vegna málsins. Þar af voru þrír handteknir eftir að hafa innritað sig í flug á Keflavíkurflugvelli. Aðrir tveir voru handteknir með þýfi á leið í Norrænu. Í kjölfar þess að málið kom upp lýsti lögreglan eftir tveimur mönnum. Skömmu eftir að tilkynning lögreglu þess efnis birtist sagðist hún hafa fengið upplýsingar um hverjir þeir væru. Einn þeirra sem er grunaður í málinu er undir rökstuddum grun lögreglu í sextán öðrum málum. Maðurinn er grunaður um heimilisofbeldi. Hann er talinn hafa ráðist með ofbeldi gegn dóttur sinni og barnsmóður. Hann er líka grunaður um fjölda þjófnaðarbrota og umferðarlagabrota. Þá hlaut hann skilorðsbundinn fangelsisdóm í September fyrir fjölda þjófnaðarbrota. Einnig liggur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunnar um brottvísun og þriggja ára endurkomubann mannsins til Íslands. Talinn hafa orðið móður sinni að bana skömmu eftir að hafa lokið afplánun Lögreglunni var tilkynnt um alvarlega líkamsárás í íbúð í fjölbýlishúsi Neðra-Breiðholti um miðnætti 23. september. Kona á sjötugsaldri fannst látin á vettvangi. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Maður um fertugt, sonur konunnar, var handtekinn á vettvangi. Hann er grunaður um að hafa ráðið henni bana. Sonurinn á sögu um ofbeldi í garð foreldra sinna. Hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps fyrir að stinga föður sinn í bakið árið 2006. Þá var sýknaður vegna ósakhæfis. Árið 2022 hlaut maðurinn tveggja ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að ráðast gegn móður sinni, kynferðisbrot gegn unglingsstúlku, og brot gegn valdstjórninni. Maðurinn hafði setið í fangelsi þangað til í haust, en þá hafði hann lokið afplánun vegna þessa dóms sem hann hlaut árið 2022. Hann hafði setið inni í fangelsi allan afplánunartímann. Annáll 2024 Dómsmál Lögreglumál Manndráp á Ólafsfirði Hnífaárás við Hofsvallagötu Andlát barns á Nýbýlavegi Grunaðir um skipulagningu hryðjuverka Stóra kókaínmálið 2022 Mál Davíðs Viðarssonar (Quang Le) Mál Mohamad Kourani Peningum stolið í Hamraborg Fjárkúgun í Reykholti Sólheimajökulsmálið Manndráp í Kiðjabergi Manndráp í Naustahverfi á Akureyri Landsliðsmenn sakaðir um kynferðisofbeldi Mál Alberts Guðmundssonar Mannslát til rannsóknar í Bátavogi Stunguárás við Skúlagötu Grunaður um að hafa myrt dóttur sína Þjófnaður í Elko Grunaður um að hafa banað móður sinni Sjóslys við Garðskaga 2024 Læknir stunginn í Lundi í Kópavogi Mest lesið „Sem þið höfðuð ekki pung til að geta staðið undir“ Innlent Kafarar sóttu mann úr bíl sem fór í höfnina Innlent Kristrún ekki sein í Kryddsíld: „Ég skil ekki hvernig þetta var hægt“ Innlent Hróshringur formanna: „Það liggur fyrir mér að verða markþjálfi“ Innlent Yazan Tamimi er maður ársins Innlent Áttræð kona sakar bæinn um mismunun vegna trúar Innlent Bak við tjöldin: Óheppileg hlátursköst og ráðherrar í ruglinu Innlent Kannast ekkert við ólgu innan flokksins vegna landsfundar Innlent Flokkur fólksins dalar eftir kosningar Innlent Vita ekki hvenær þau komast heim með líkamsleifar drengsins síns Innlent Fleiri fréttir Hróshringur formanna: „Það liggur fyrir mér að verða markþjálfi“ „Sem þið höfðuð ekki pung til að geta staðið undir“ Kannast ekkert við ólgu innan flokksins vegna landsfundar Yazan Tamimi er maður ársins Kristrún ekki sein í Kryddsíld: „Ég skil ekki hvernig þetta var hægt“ Fyrsti símafundurinn við utanríkisráðherra Úkraínu Kafarar sóttu mann úr bíl sem fór í höfnina Hér eru brennurnar á höfuðborgarsvæðinu Flokkur fólksins dalar eftir kosningar Árið gert upp í Kryddsíld 2024 Varnargarðsmenn maður ársins að mati lesenda Vísis og hlustenda Bylgjunnar Breytingar á fylgi stjórnarflokka, norðurljósadýrð og undirbúningur Kryddsíldar Vara við svikapósti í nafni Skattsins Hvar er opið um áramótin? Köstuðu flugeldum upp á svalir fólks Bak við tjöldin: Óheppileg hlátursköst og ráðherrar í ruglinu Áttræð kona sakar bæinn um mismunun vegna trúar Nokkura bíla árekstur á Vatnaleið Flestir ánægðir með Kristrúnu en mest óánægja með Bjarna Táningspiltur mögulega með reykeitrun eftir flugeldafikt Vita ekki hvenær þau komast heim með líkamsleifar drengsins síns Ákall eftir réttmætari dreifingu á arði Samfélag í sárum, ný könnun og kíkt á bak við tjöldin Vilja ekki fresta fundi í ljósi nýs raunveruleika í pólitík 3,7 milljónir fiska drápust eða var fargað Gæsluvarðhald í stóru fíkniefnamáli framlengt Laun hjúkrunarfræðinga nú sambærileg við BHM Öflugasta eftirlit í áratugi veltur á fjármögnun stjórnvalda Jón Steindór aðstoðar Daða Má Ríkisráð fundar ekki á morgun eins og hefð er fyrir Sjá meira
Einnig var mikið um stunguárásir og umfangsmikil þjófnaðarmál. Þá var nokkuð um mál sem grunur er um mansal Þar að auki þurftu dómstólarnir að takast á við sakamál sem komu upp árin á undan. Mörg þessara máli fönguðu athygli þjóðarinnar. Hér að neðan verður fjallað um helstu sakamál ársins, bæði þau sem komu upp á árinu og eru jafnvel enn óleyst, sem og mál sem hafa komið upp á síðustu árum, en fengu niðurstöðu fyrir dómi á þessu ári, hvort sem það Líkt og áður segir komu mjög mörg mál við sögu á þessu ári, og því mörg merkileg sem og alvarleg mál sem komust ekki í þessa samantekt. Úr átta ára fangelsi í sýknu Í byrjun janúarmánaðar var hinn 37 ára gamli Steinþór Einarsson dæmdur í átta ára fangelsi fyrir manndráp á Ólafsfirði í október 2022. Það var héraðsdómur Norðurlands eystra sem komst að þessari niðurstöðu. Steinþóri var gefið að sök að svipta hinn 47 ára gamla Tómas Waagfjörð lífi með því að stinga hann tvisvar í síðuna. Steinþór vildi meina að um neyðarvörn hefði verið að ræða. Tómas hefði fyrst ráðist á sig með stórum hníf. Aðalmeðferð málsins í héraði fór fram í desember 2023. Þar var Steinþór spurður út í ummæli sem hann átti að hafa viðhaft um Tómas um hálftíma fyrir dauða hans, en hann á að hafa sagt að hann væri alveg við það að „drepa þennan hobbita.“ Steinþór sagði það hafa verið sagt í gríni, en hann hefði verið orðinn þreyttur á ofbeldi Tómasar í garð eiginkonu hans og vinkonu sinnar. „Þetta væri hálf illa skipulagt morð ef ég væri að ræða það hálftíma fyrir það,“ sagði hann. „Ég á það til að tala svolítið ýkt.“ Málinu var áfrýjað til Landsréttar, en þar var Steinþór sýknaður í lok október. Það var niðurstaða Landsréttar að honum hefði verið heimilt að beita neyðarvörn þegar hann hefði verið að afstýra stórhættulegri árás Tómasar. „Við hljótum að gera þá kröfu til íslenska löggjafar og dómstóla að þeir fallist á það að fólk megi verja hendur sínar við þessar aðstæður. Ég segi það fullum fetum: Ef þessi ákvæði um neyðarvörn eiga ekki við í þessu tilfelli þá eiga þau aldrei við. Þá getum við alveg eins sleppt því að hafa þau í lögum,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Steinþórs, í kjölfarið. Taldi sjálfan sig fórnarlamb árásar Að morgni laugardagsins 20. janúar var greint frá því að karlmaður á þrítugsaldri væri í lífshættu eftir að hafa verið stunginn í vesturbæ Reykjavíkur um nóttina. Jafnframt kom fram að karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn grunaður um árásina. Sá handtekni, sem heitir Örn Geirdal Steinólfsson, var síðar ákærður og fór aðalmeðferð málsins fram í september. Honum var gefið að sök að stinga hinn manninn tvisvar, annars vegar í öxl og hins vegar í síðuna. Sá sem var stunginn hafði verið á ferð með vinkonu sinni. Þau hafa sagst hafa verið á göngu á leið heim úr miðbænum þegar þau veittu árásarmanninum athygli. Hann hafi verið að ganga á miðri götu og að þeirra mati stefnt sjálfum sér í hættu. Örn lýsti sjálfum sér sem venjulegum manni þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi og sagði daginn í aðdraganda árásarinnar hafa verið ósköp hefðbundinn. Hann hafi verið heima um kvöldið, borðað kvöldmat með fjölskyldunni, og farið snemma að sofa. „Af einhverri ókunnugri ástæðu virðist ég hafa farið á fætur og farið í vinnuföt sem ég hafði verið í um daginn,“ sagði Örn og útskýrði að í vinnubuxunum hafi verið lítill svartur vasahnífur sem hann væri búinn að eiga í mörg ár. Hann hafi síðan farið á bar, en hann sagðist ekki muna mikið eftir því. Þar hefði hann líklega fengið sér einn drykk og síðan haldið heim á leið. Hann taldi sjálfur að ráðist hefði verið á sig, hann ætti einhverjar óljósar minningar um það. Þá myndi hann eftir „dökkri veru“ standa yfir sér og stúlku sem hafi verið öskrandi. „Þetta var óljós og hrikaleg upplifun eftir það, eitthvað sem venjulegir menn eiga ekki að venjast,“ sagði Örn, sem taldi að hann hefði ekki framið árásina. „Að ég sé að fara í fangelsi, það er mér alveg óskiljanlegt.“ Örn var í október dæmdur í sex ára fangelsi vegna málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá var honum gert að greiða manninum sem hann stakk 2,2 milljónir króna. Dæmd vegna andláts sex ára barns Þann 31. janúar var greint frá því að andlát sex ára barns í Kópavogi væri til rannsóknar hjá lögreglu. Næstu daga var greint frá því að barnið hefði dáið í heimahúsi við Nýbýlaveg, og að móðir þess, sem var handtekin, væri grunuð um að verða því að bana. Í apríl var konan ákærð fyrir að reyna að bana syni sínum með því að kæfa hann með kodda. Hún var einnig ákærð fyrir tilraun til að bana eldri syni sínum sem var ellefu ára, líka með því að kæfa hann með kodda. Eldri drengurinn hafi hins vegar vaknað og náð að losa sig úr taki móður sinnar. Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í september. Þinghaldið var lokað fjölmiðlum. Konan, sem er á fimmtugsaldri, var dæmd í átján ára fangelsi í nóvember. Það var niðurstaða dómsins að hún hefði verið þjökuð af alvarlegu þunglyndi en ekki verið geðveik. Fram kom í dómnum að hún hefði sjálf tilkynnt lögreglu um málið með því að hringja á neyðarlínuna. Aðspurð í símann hvað hefði gerst sagði hún að sonur sinn hefði dáið. Hann væri kaldur viðkomu og andaði ekki. Eldri sonur hennar hefði farið í skólann og vissi ekki hvað hefði gerst. Þegar lögregluna bar að garði hefði konan opnað fyrir þeim og fylgt þeim í íbúð hennar. Lögreglumönnum þótti hún ákaflega róleg miðað við aðstæður. Þá hefði hún sýnt þeim með látbragði hvernig hún hefði kæft son sinn. Hinn sonurinn hafði, líkt og konan sagði, farið í skólann. Drengurinn tjáði lögreglunni frá því að hann hefði vaknað um nóttina við það að hún hafi haldið fyrir vit hans. Honum hafi tekist að losa sig. Þá hafi móðirin spurt hann hvort hann vildi ekki deyja áður en hann næði tilteknum aldri, því þá færi hann í góða heiminn. Hann hafi neitað því. Síðan hafi drengurinn sofnað aftur, en morguninn eftir hafi móðirin tilkynnt honum um að yngri bróðir hans væri veikur. Þrír dómkvaddir matsmenn voru sammála um að konan hefði ekki verið geðveik heldur alvarlega þunglynd. Tveimur vikum eftir atburðina hefði hún greint frá því að hún hefði heyrt raddir, en hún hafði áður neitað fyrir það. Því töldu matsmennirnir að um eftiráskýringar væri að ræða. Konan hefur áfrýjað málinu til Landsréttar, en hefur krafist sýknu vegna ósakhæfis. Aðalmeðferð hryðjuverkamálsins fór loksins fram Aðalmeðferð hryðjuverkamálsins svokallaða fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur um nokkurra daga skeið í febrúar. Í málinu voru tveir ungir menn, Sindri Snær Birgisson, 26 ára, og Ísidór Nathansson, 25 ára, ákærðir fyrir skipulagningu hryðjuverka. Þeir voru handteknir í september 2022, og voru ákærðir í desember sama ár. Mikið rót var á málinu, sem fólst meðal annars í því að gefa þurfti út aðra ákæru, og því fór aðalmeðferðin ekki fram fyrr en á þessu ári. Sindri var ákærður fyrir tilraun til að skipuleggja hryðjuverk, en Ísidór var ákærður fyrir hlutdeild í því. Þeir voru einnig ákærðir fyrir vopnalagabrot, sem þeir játuðu báðir að hluta, en þeir neituðu alfarið fyrir að hafa ætlað að fremja hryðjuverk. Málið varðaði að miklu leyti samskipti mannanna á dulkóðaða samskiptamiðlinum Signal. Þar töluðu þeir um ýmis ódæðisverk, líkt og hryðjuverk Anders Behring Breivik, sem drap tugi manna á Útey og í Osló 2011. Sindri sagði fyrir dómi að þeir hefðu báðir mjög svartan húmor og að engin alvara hefði verið á bak við þessar samræður þeirra. Hann sagðist til að mynda hafa verið að drekka í tvo sólarhringa á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum þegar hann sendi Ísidór skilaboð um að hann hefði verið á grensunni með að fremja fjöldamorð. „Ég vil meina að flest þau vandamál sem íslenskt samfélag finnur fyrir séu utanaðkomandi, innflutt,“ sagði Ísidór fyrir dómi þegar hann var spurður út í ein af fjölmörgum ummælum sínum á Signal. „Ég er ekki hefðbundinn teiknimyndarasisti, sem mismunar fólki eftir húðlit. Besti vinur minni í æsku var svartur.“ Fjölmargir báru vitni fyri dómi. Unnusta Ísidórs sagði hann eiga það til að vera orðljótur og gera sig stórkarlalegan fyrir framan vini sína. Hann væri þó ekki ofbeldisfullur og hefði aldrei talað af alvöru um að beita ofbeldi. Þá gekkst hún við því að nasistafáni hefði fundist á heimili þeirra. Geðlæknir sem var fenginn til að framkvæma geðmat á Sindra og Ísidór sagði þá báða hafa talað opinskátt um orðræðuna sem fór þeim á milli, og þeir sæju eftir því þeir sem þeir sögðu. „Ljóst er að yfirgnæfandi þorri galgopalegrar orðræðu ungra manna leiðir ekki til neinna framkvæmda, það er óskaplega mikil undantekning,“ sagði hann aðspurður út í hversu mikið væri að marka það sem þeir sögðu sín á milli. Verkefnastjóri hjá Europol sem skoðar hryðjuverk hægrisinnaðra öfgamanna gaf líka skýrslu. Sá sagðist handviss um að lögreglan hefði komið í veg fyrir hryðjuverk með handtöku mannanna. Sindri og Ísidór voru í mars sýknaðir af ákærum sem vörðuðu skipulagningu hryðjuverka, en voru sakfelldir fyrir vopnalagabrot. Sindri fékk tveggja ára fangelsisdóm og Ísidór átján mánuði. Í dómi héraðsdóms sagði að ákveðnar líkur væru á því að Sindri hefði haft einhvers konar illvirki í huga, en ekki lægi nákvæmlega fyrir hvert skotmark hans hefði orðið, hvar eða hvenær. Þó hefði ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að hann hafi ætlað að fremja hryðjuverk. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar. Kom sjálfviljugur til landsins og fékk átta ára dóm Um miðjan febrúar lýsti Interpol eftir íslenskum karlmanni, honum Pétri Jökli Jónassyni. Lögreglan sagðist ekki vita hvar hann væri staddur. Um tíu dögum eftir að Pétur Jökull var eftirlýstur kom hann sjálfur til Íslands með flugi frá Evrópu. Hann var handtekinn á Keflavíkurflugvelli við lendingu og svo úrskurðaður í gæsluvarðhald. Pétur Jökull var grunaður um aðild að stóra kókaínmálinu svokallaða, sem varðaði innflutning á 99 kílóum af kókaíni til landsins árið 2022. Efnin voru flutt inn í timburdrumbum frá Brasilíu, en voru gerð upptæk í Rotterdam og skipt út fyrir gerviefni. Áður höfðu fjórir menn hlotið á bilinu níu til fimm ára fangelsisdóma í málinu. Í kjölfar komu Péturs Jökuls til landsins var hann ákærður fyrir sinn þátt og aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst, en þar neitaði hann alfarið sök. Seinna í sama mánuði komst dómurinn að niðurstöðu og dæmdi Pétur í átta ára fangelsi. Í dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að Pétur hefði fengið Daða Björnsson, sem hlaut fimm ára dóm í málinu á sínum tíma, til verksins, stýrt honum, útvegað honum fjármuni og síma til að fremja sitt brot. Þá hefði hann verið í samskiptum við Birgi Halldórsson, sem hlaut níu ára dóm í málinu, og þeir verið með hina þrjá sakborningana undir sér. Pétur Jökull hefur áfrýjað málinu til Landsréttar. Grunaður í umfangsmiklu mansalsmáli Lögreglan lagðist í umfangsmiklar aðgerðir víða um land þann 5. mars vegna gruns um mansal, peningaþvætti, og skipulagða glæpastarfsemi tengdum fyrirtækjum Quangs Le, sem þá hét reyndar Davíð Viðarsson. Umrædd fyrirtæki voru meðal annars Vy-þrif, Pho Víetnam og Wok On. Mánuðina áður hafði starfsemi þessara fyrirtækja verið til umfjöllunar. Þar má sérstaklega minnast á matvælalager Vy-þrifa þar sem tuttugu tonnum af matvælum var fargað eftir að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur komst á snoðir um rottugang í húsnæðinu. Greint var frá því að mikið magn rottuskíts hefði verið á svæðinu. Jafnframt fannst dýna í geymslunni sem þótti til marks um að fólk hefði þurft að sofa í henni. Í lok síðasta árs kærði heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fyrirtækið til lögreglu. Í aðgerðunum 5. mars voru átta handteknir og gaf lögreglan út að hún teldi tugi vera þolendur mansals í málinu. Þeim hefur síðan fjölgað, en í júní var greint frá því að þeir væru orðnir tólf. Þar af eru nokkrir með fjölskyldutengsl við Quang Le. Hann var sjálfur í gæsluvarðhaldi þangað til um miðjan júní. Greint hefur verið frá því að grunur sé um að Quang Le hafi þegið greiðslur frá víetnömsku fólki fyrir aðstoð við að koma þeim til landsins. Þá sé talið réttindi starfsfólks fyrirtækja hans hafi verið brotin, það unnið allt of langa vinnudaga og fengið lítið frí. Einnig sé grunur um að folk hafi þurft að greiða hluta launa sinna aftur til vinnuveitenda. Sveinn Andri Sveinsson, verjandi Quangs Le, hefur gagnrýnt meðferðina sem umbjóðandi hans hefur mátt þola. Hann hefur sagt að íslenskir sakborningar hefðu ekki þurft að þola annað eins. „Venjulega eru mál rannsökuð, svo er dæmt og menn sekir eða sýknaðir eftir atvikum. Og taka þá afleiðingum gjörða sinna. Hann hefur verið gersamlega knésettur áður en nokkuð af þessu liggur fyrir. Hann er þegar farinn að taka afleiðingum áður en dæmt er. Það er búið að hafa af honum öll viðskipti, félög hans knúin í gjaldþrot, búið að loka á öll bankaviðskipti … hann er að verða fyrir tjóni sem nemur hundruðum milljóna,“ sagði Sveinn Andri. „Ég er ekki ógnandi maður“ Um mitt sumar heltók mál eins manns þjóðina. Þá mætti Mohamad Kourani, sem nú heitir Mohamad Th. Jóhannesson, fyrir dóm og svaraði fyrir ákæru um stunguárás sem honum var gefið að sök að hafa framið í OK Market í Valshverfinu í mars. „Ég kann ekki að gera árás með hníf. Ég er ekki ógnandi maður. Ég er bara venjulegur maður. Ef þið haldið mér áfram í fangelsi þá verður vandamál,“ sagði Mohamad í Héraðsdómi Reykjaness. Hann var ákærður fyrir að stinga tvo menn í búðinni, og fyrir önnur brot líkt og fyrir að hóta lögreglumanni og fjölskyldu hans lífláti, og kasta hlandi á fangaverði. Tvö myndbönd sem sýna árásina voru sýnd fyrir dómi, en Mohamad sagðist ekki kannast við það að árásarmaðurinn á myndbandinu væri hann sjálfur. „Þetta er ekki ég,“ sagði hann og hló. Annar þeirra sem varð fyrir árásinni sagði Mohamad ítrekað hafa hótað honum og fjölskyldu hans lífláti. Fjölskylda hans hafði flutt úr landi til Dubai vegna hans. „Ef þessi maður kemst út úr fangelsi mun hann drepa barnið mitt eða barn dómarans. Hann mun gera allt,“ sagði hann. Hann var dæmdur í átta ára fangelsi vegna árásarinnar og annarra brota. Greint var frá því að stunguárásin í OK Market væri ekki eina sakamálið sem Mohamad væri viðloðinn. Til að mynda hefði hann hrellt Helga Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknara um nokkurra ára skeið og hlotið dóm fyrir. Hann kom hingað til lands árið 2018 og fékk þá alþjóðlega vernd. Viku eftir árásina í OK Market var Mohamad dæmdur til fjórtán mánaða fangelsisvistar fyrir fjölda brota, líkt og að hrinda manni sem reyndi að róa hann niður eftir að starfsmaður Frumherja neitaði að veita honum ökuréttindi án þess að hann tæki bílpróf. Hann var einnig sakfelldur fyrir að senda sprengjuhótanir, umferðarlagabrot og að hafa hrækt á lögregluþjón á lögreglustöð. „Þetta er auðvitað klikkun, maðurinn er algjörlega stjórnlaus og þetta er með ólíkindum. Það er ekki huggulegt að eiga það yfir höfði sér að hann banki uppá hjá börnunum manns. það gefur augaleið,“ sagði Helgi í viðtali við Vísi um Mohamad. Dularfullur þjófnaður í Hamraborg Á meðan starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar voru inni á Catalinu í Hamraborg í Kópavogi að sækja pening út spilakössum þann 25. mars síðastliðinn brutust tveir menn inn í bíl þeirra og höfðu á brott með sér tuttugu til þrjátíu milljónir króna. Myndskeið af atvikinu sýnir hvernig mennirnir bakka Toyotu Yaris-bíl sínum að sendiferðabíl Öryggismiðstöðvarinnar, brjótast inn í bílinn, færa peningatöskur yfir í eigin bíl og bruna svo í burtu. Þetta tók minna en mínútu, en nokkrar mínútur liðu þangað til upp komst um þjófnaðinn. Í kjölfarið var lýst eftir dökkgráum Toyota Yaris, sem reyndist síðar hafa verið með tvær mismunandi númeraplötum sem hafði verið stolið af öðrum ökutækjum. Daginn eftir þjófnaðinn fundust töskur í Mosfellsbæ á þremur mismunandi stöðum, en öll verðmæti höfðu veri tekin úr þeim. Í heildina var sjö töskum stolið en einungis voru verðmæti í tveimur þeirra. Litasprengjum hafði verið komið fyrir í töskunum til að eyðileggja verðmætin myndi einhver reyna að opna þær. Óvíst er hve stór hluti fjárins eyðilagðist vegna þessara sprengja, en talið er að töskurnar hafi verið opnaðar með slípirokk. Jafnframt lýsti lögreglan eftir tveimur mönnum daginn eftir þjófnaðinn. Á mynd sem lögreglan sendi fjölmiðlum sáust mennirnir tveir keyrandi um á Toyota Yaris bíl. Andlit þeirra sáust ekki að fullu. Í maí var íslenskur karlmaður um fertugt úrskurðaður í gæsluvarðhald í tengslum við þjófnaðinn. Greint var frá því að litaðir seðlar hefðu ratað í spilakassa á vegum Happdrætti Háskólans nokkrum dögum áður. Maðurinn var látinn laus rúmri viku seinna, en var þó enn sagður grunaður í málinu. Í lok nóvember var greint frá því að málið hefði verið sent til ákærusviðs. Þá kom fram að einn væri með stöðu sakbornings, en ekki var upplýst hvort hann væri grunaður um að fremja sjálfan þjófnaðinn eða einhvers konar aðild að málinu. Talin hafa haldið manni föngum um nokkurra daga skeið Grunur er um að þrír einstaklingar hafi um nokkurra daga skeið, frá 19. apríl til 22. apríl, haldið maltneskum manni föngum og fjárkúgað hann í Reykholti í Biskupstungum. Lögregla hóf rannsókn á málinu þegar henni barst tilkynning um að óttast væri um heilsu og afdrif mannsins. Tveimur dögum seinna fékk lögregla upplýsingar um að maðurinn væri fundinn í Möltu, illa haldinn og með áverka víðsvegar um líkamann, sem væru sumir alvarlegir. Maðurinn hefur lýst hrottafenginni meðferð af hálfu fólksins. Þau hafi ruðst inn á heimili hans að kvöldi föstudagsins 19. apríl, ráðist á hann með margvíslegu líkamlegu ofbeldi, líkt og hnúajárnum. Þá hafi þau sparkað í hann og kýlt víðs vegar um líkamann. Maðurinn sagðist hafa verið bundinn á höndum og fótum, látinn liggja löngum stundum á sturtugólfi þar sem köldu vatni hafi verið bunað yfir hann. Þar að auki hafi hann verið sveltur. Markmið fólksins hafi verið að fá hann til að gefa upp aðgangsorð á bankareikninga hans, svo hægt væri að hafa af honum fé. Fólkið hafi flutt hann nauðugan og stórslasaðan upp á flugvöll og gerðu honum að yfirgefa landið. Honum hafi verið hótað að fjölskyldu hans yrði gert mein ef hann myndi leita aðstoðar. Hann hafi því farið úr landi með flugi til Möltu án þess að gera nokkrum viðvart, en hann hafi misst meðvitund fljótlega eftir komuna til landsins. Í fyrstu voru fjórir Íslendingar handteknir vegna málsins. Það voru karlmaður á áttræðisaldri, dóttir hans og tengdasonur um þrítugt, og bróðir tengdasonarins. Eitt af öðru var þetta fólk látið laust úr haldi. Haft var eftir íbúum í Reykholti og Laugarási að maltneski karlmaðurinn hefði búið og starfað þar til fleiri ára. Þau báru honum vel söguna. Hann var sagður mjög vænn og nægjusamur maður. Sökum nægjusemi sinnar hafa komið sér upp einhverjum sjóði. Sakborningarnir eru grunaðir um að hafa reynt að sækja í þann sjóð. Sólheimajökulsmálið Skemmtiferðaskipið AIDAsol lagðist við bryggju hér á landi 11. apríl síðastliðinn. Um borð voru tveir menn með 2,2 kíló af kókaíni meðferðis sem þeir földu í eldhúspottum. Annar þeirra mun hafa afhent þriðja manninum efnin. Sá var í kjölfarið handtekinn. Lögreglan lagðist í kjölfarið í umfangsmiklar aðgerðir þar sem ráðist var í margar leitir á höfuðborgarsvæðinu og tugir handteknir. Þessi innflutningur er í raun einungis einn angi Sólheimajökulsmálsins svokallaða, sem fær nafn sitt frá spjallhópi þar sem hópur fólks skipulagði árshátíðarferð þar sem lagt var til að fara á Sólheimajökul. Sakborningar málsins voru jafnframt ákærðir fyrir að standa í umfangsmikilli skipulagðri brotastarfsemi. Upphaflega voru átján ákærðir í málinu, en nokkrir játuðu sök og var þeirra þáttur klofinn frá málinu. Á meðal þeirra ákærðu var Jón Ingi Sveinsson, grunaður höfuðpaur Sólheimajökulshópsins. Aðalmeðferð málsins fór fram um nokkurra daga skeið í Héraðsdómi Reykjavíkur, en þar gaf Jón Ingi þrisvar sinnum skýrslu. Gögn lögreglu byggðu á samskiptum á forritinu Signal og upptökum á símtölum. Jón Ingi vildi meina að einhverra þeirra gagna hefði verið aflað með ólöglegum hætti þar sem heimild hafi ekki legið fyrir um að taka upp símtöl hans á erlendri grundu. „Ég ætla ekki að svara fyrir þetta. Ég ætla ekki að ræða ólöglegar upptökur,“ sagði Jón Ingi. Lögmaður hans, Björgvin Jónsson, tók í sama streng: „Þetta eru ólögleg gögn. Þetta gæti þess vegna verið búið til með aðstoð gervigreindar,“ Varðandi innflutninginn með AIDAsol viðurkenndi Jón Ingi að hafa átt þátt í málinu. Hann kannaðist þó ekki við að skipuleggja hann, líkt og hann var ákærður fyrir. Jón Ingi sagðist hafa komið inn í málið þegar sakborningarnir sem voru í skipinu voru farnir erlendis. Honum hafi verið boðið að kaupa helming efnanna sem þarna voru, en hann taldi það vera 750 grömm. „Ég tek alveg á mig það sem ég gerði, en hitt er ekki ég.“ Í byrjun mánaðar var kveðinn upp dómur í málinu. Jón Ingi var dæmdur í sex ára fangelsi. Haukur Ægir Hauksson og Gunnlaugur J. Skarphéðinsson fengu báðir fimm ára dóm og þeir Pétur Þór Guðmundsson og Árni Stefán Ásgeirsson hvor um sig fjögurra ára dóm. Jafnframt voru Valgerður Sif Sigurðardóttir, Tinna Kristín Gísladóttir, Thelma Rún Ásgeirsdóttir og Andri Þór Guðmundsson dæmd í þriggja ára fangelsi. Aðrir sakborningar fengu vægari dóma sem voru skilorðsbundnir að mestu leyti. Ákærður vegna andláts manns í sumarhúsi Fjórir voru handteknir vegna grunns um manndráp í sumarhúsi í Kiðjabergi í Árnessýslu þann 20. apríl síðastliðinn. Hinn látni og þessir fjórir sem voru handteknir eru allir litháskir karlmenn. Mennirnir voru í sumarhúsabyggðinni á vegum verktakafyrirtækis. Lögreglu barst tilkynning um meðvitundarleysi í bústaðnum og fljótlega eftir komu viðbraðgsaðila á vettvang var einn einstaklingur úrskurðaður látinn. Fram hefur komið að augljósir áverkar á líkinu hafi strax gefið lögreglu vísbendingu um að sakamálarannsóknar þyrfti við. Tveir þessara fjórmenninga voru í upphafi undir sérstökum grun, en þeir eru taldir hafa verið þeir einu sem voru í sama húsi og hinn látni þegar hann lést. Líklega hafi þeir tveir verið þeir síðustu sem hinn látni átti í beinum samskiptum við. Annar þessara tveggja greindi frá því að hann hafi orðið var við ágreining milli hins mannsins og hins látna. Síðan hafi hann komið að hinum látna liggjandi á gólfi aðalrýmis sumarhússins. Hann hafi haft talsverðar áhyggjur vegna þess og taldi að hinn látni þyrfti nauðsynlega að komast undir læknishendur, og hann hafi meðal annars hringt í yfirmenn sína og tjáð þeim áhyggjur sínar. Hinn maðurinn neitar sök og hefur haldið sakleysi sínu staðfastlega fram og neitað því að hafa valdið áverkunum á líkinu. Hann hefur þó viðurkennt að hafa ráðist á hinn látna í aðdraganda andlátsins. Sá maður hefur verið ákærður í málinu. Hann er ekki ákærður fyrir manndráp heldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem leiddi til dauða. Áralangt heimilisofbeldi í aðdraganda andlátsins Tveimur dögum eftir að málið í Kiðjabergi kom upp á Suðurlandi hóf lögreglan á Norðurlandi eystra rannsókn á andláti konu á Akureyri. Sú fannst látin í íbúð við Kjarnagötu í Naustahverfi. Eiginmaður konunnar var handtekinn grunaður um verknaðinn. Það var hann sem hringdi í neyðarlínuna og tilkynnti að konan hans lægi á gólfinu og að hann teldi að hún væri látin. Hann sagðist hafa séð konuna lifandi fyrir um það bil fjórum til sex tímum. Hann heyrðist biðja hana fyrirgefningar. Fyrir dómi lýsti hann kvöldinu í aðdraganda andlátsins þannig að hann hafi verið að horfa á sjónvarpið. Hún hafi komið fram til hans, gengið fram hjá honum og dottið. Hann hafi rétt út hönd til að draga úr falli hennar. Hún hafi lent á hörðu undirlagi en ekki meitt sig, þá hafi þau horft saman á sjónvarpið þar til hann fór að sofa. Þegar hann vaknaði hafi konan setið á stól í stofunni með opin augu og verið orðin köld. Þessar skýringar hans á andlátinu töldust ótrúverðugar. Fyrr í þessum mánuði hlaut hann tólf ára fangelsisdóm vegna málsins. Hann var ekki sakfelldur fyrir manndráp heldur fyrir brot í nánu sambandi sem leiddi til andláts konunnar. Í dóminum var haft eftir sonum hjónanna, móður konunnar og vinkona hennar til áratuga að maðurinn hafi beitt hana alvarlegu heimilisofbeldi um árabil. Lögreglan aflaði gagna um samband þeirra og niðurstaðan var sú að líklega hefði maðurinn beitt hana heimilisofbeldi á þriðja tug ára. Tveir synir hjónanna, sem ekki hafa náð átján ára aldri, lýstu andlátinu sem ákveðnum létti. Ofbeldinu væri alla vega lokið. Fyrrverandi landsliðsmaður sýknaður Í byrjun maímánaðar var greint frá því að Kolbeinn Sigþórsson, fyrrverandi landsliðsmaður, í knattspyrnu hefði verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barnungri stúlku. Honum var gefið að sök að hafa nauðgað og brotið kynferðislega á stúlkunni með því að draga niður nærbuxur hennar og strjúka yfir kynfæri hennar fram og til baka mörgum sinnum og setja fingur í leggöng hennar. Kolbeinn var sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness. Meint brot hans var sagt hafa átt sér stað að kvöldi sunnudags í júní 2022 í sumarhúsi á vegum Kolbeins. Brotaþoli málsins var vinkona barns Kolbeins. Í dómnum segir að margt sé á huldu um málið sem geti skipt máli. Til að mynda sé óljóst hvort stúlkan hafi gist eina eða tvær nætur í sumarhúsinu, og einnig sé óljóst hvort þriðja barnið hafi gist í húsinu umrædda nótt. Þá sé á reyki hvernig stúlkan fór heim úr sumarhúsinu. Móðir brotaþolans var lykilvitni í málinu, en dómnum þótti nokkrir hlutir rýra frásögn hennar. Einnig þótti framburður stúlkunnar ekki trúverðugur. Greint hefur verið frá því að ríkissaksóknari hafi ákveðið að áfrýja málinu ekki til Landsréttar. Héldu áfram þrátt fyrir að skipið væri að sökkva Skiptstjóri strandveiðibáts bjargaði manni úr öðrum strandveiðibát sem sökk norðvestur af Garðskaga aðfaranótt 16. maí. Maðurinn sem vann björgunarafrekið heitir Arnar Magnússon og hefur verið tilnefndur sem maður ársins fyrir viðbrögð sín. „Svo þegar ég kem þarna utar sé ég eitthvað sem ég hélt að væri gámur á floti, svo sé ég að þetta er bátur, ég tek hring og þegar ég kom nær og sá nafnið á bátnum þá fékk ég sting í hjartað. Þessi maður, ég hef þekkt hann í 40 ár,“ sagði Arnar í samtali við Vísi. „Svo allt í einu skýtur hann upp, hann var búinn að koma sér í flotgallann og komast út, þannig ég dröslaði honum um borð og sagði honum að slaka á.“ Um hádegisleytið daginn sem þetta gerðist var greint frá því að vísbending væri um að flutningaskip hefði hvolft bátnum. Síðdegis sama dag voru skipstjóri og tveir stýrimenn skipsins Longdawn handteknir í Vestmannaeyjum vegna málsins. Annar stýrimannanna var látinn laus í kjölfarið. Í júlí voru hinir tveir ákærðir. Degi eftir að greint var frá því fór þingfesting málsins fram þar sem þeir játuðu sök. Og daginn þar á eftir hlutu þeir dóm. Eduard Dektyarev skipstjóri hlaut tólf mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og Alexander Vasilyev stýrimaður fékk átta mánaða skilorðsbundinn dóm. Fram kom í málinu að skipstjórinn hefði gefið fyrirmæli um að halda för skipsins áfram eftir áreksturinn þrátt fyrir að stýrimaðurinn hefði upplýst hann um áreksturinn og að hann teldi sig hafa séð bátinn sökkva. Skipstjórinn var einnig sakfelldur fyrir að vera áhrifum áfengis og fíkniefna þegar hann stjórnaði skipinu. Hann var sviptur skipstjórnarleyfi í þrjá mánuði. Skaut sex skotum að níu ára barni á jólunum Ásgeir Þór Önnuson hlaut fimm ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness í lok júní fyrir skotárás sem hann framdi á heimili í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld 2023. Hann braust grímuklæddur inn á heimili í Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og skaut sex skotum með skammbyssu að níu ára stúlku og föður hennar. Tveir samverkamenn hans hlutu vægari dóma. Annar þeirra, Breki Þór Frímannsson hlaut 30 mánaða dóm. Hinn hlaut eins árs dóm, skilorðsbundinn til þriggja ára. Ásgeir viðurkenndi að hafa ruðst inn á heimilið og hleypt af. Hann sagðist hafa gert það í þeim tilgangi einum að hræða föðurinn. Hann vildi ekki segja frá því hvers vegna hann hafi ætlað að gera það. Breki sagðist hafa vitað að Ásgeir hafi einungis ætlað að hræða föðurinn með byssunni og ef til vill berja hann aðeins. Í ákæru málsins sagði að árásin hefði verið þaulskipulögð. Ásgeir hafi greitt þriðja manninum 80 þúsund krónur fyrir að aka með þeim á vettvang. Þar hafi Ásgeir og Breki skilið símana sína eftir. Þá hafi föt til skiptanna verið í bílnum, og þeir síðan skipt um númeraplötur á bílnum. Það hafi allt verið gert til að villa um fyrir lögreglu. Níu ára stúlka gaf skýrslu í málinu. Hún sagðist hafa verið að fara út úr sínu herbergi í íbúðinni, þar sem hún hafði verið að sækja skæri til að opna pakka, þegar hún hafi séð menn, reyk og glerbrot á gólfinu. Faðir stúlkunnar hafi svo gripið hana og verið eins og „varnarskjöldur“. Barnið kvaðst hafa orðið verulega hrætt. Kvöldganga tveggja hjóna breyttist í martröð Klukkan hálfellefu að kvöldi 21. júní barst lögreglu tilkynning um alvarlega líkamsárás í Kópavogi þar sem að vopni hafði verið beitt. Greint var frá því daginn eftir að einn hefði verið handtekinn skammt frá vettvangi og að aðbúnaður lögreglunnar hafi verið mikill. Nokkrum dögum seinna kom fram að læknir á sextugsaldri hefði verið stunginn en hann hafði verið í kvöldgöngu með eiginkonu sinni og vinahjónum við Lund í Kópavogi. Grunaður árásarmaður hefði komið að þeim á rafhlaupahjóli, ekið utan í annan eiginmanninn sem missti jafnvægið. Þá hefði komið til orðaskaks á milli þeirra og árásarmaðurinn síðan hefði maðurinn framið árásina. Daníel Örn Unnarsson, þrítugur maður, var ákærður fyrir verknaðinn, að stinga lækninn að minnsta kosti fjórum sinnum í háls, síðu og nára. Hann játaði að hafa stungið lækninn en vildi meina að ekki væri um tilraun til manndráps að ræða. Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í nóvember. Þar greindi Daníel frá því að eftir áreksturinn hefði hann farið að munnhöggvast við fólkið. Hann hafi kallað eina konuna orði sem hann væri ekki stolltur af, og þá hafi læknirinn slegið hann bylmingshöggi í gagnaugað. Læknirinn neitaði því alfarið. Þá sagðist Daníel hafa tekið upp hnífinn og sveiflað honum á meðan hann hörfaði undan. Hann hafi ekki ætlað sér að stinga lækninn. „Ég sveiflaði bara hnífnum og hljóp í burtu. Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en lögreglan sagði mér frá þessu,“ sagði hann. Hinn eiginmaðurinn, vinur læknisins, hafi þá farið eftir honum á rafhlaupahjólinu, náð honum og tekið hann einhvers konar hengingartaki. Svo hafi lögreglu borið að garði og handtekið Daníel. Þessi vinur læknisins er með stöðu sakbornings fyrir að ráðast þarna á Daníel. Daníel Örn hlaut fjögurra ára fangelsisdóm í byrjun mánaðar. Að mati dómsins var atlaga hans tilraun til manndráps. Tíu ára fangelsi vegna andláts í Bátavogi Aðalmeðferð Bátavogsmálsins svokallaða fór fram um nokkurra daga skeið í Héraðsdómi Reykjavíkur í lok júní. Í málinu var Dagbjörtu Guðrúnu Rúnarsdóttur, konu á fimmtugsaldri, gefið að sök að verða manni að bana þann 23. september 2023 í íbúð hennar í Bátavogi í Reykjavíkur. Hún var ákærð fyrir að beita manninn margþættu ofbeldi í aðdraganda andlátsins dagana tvo áður en hann lést. Hundur Dagbjartar, sem lést í aðdraganda andláts mannsins, var miðlægur í málinu. Dagbjört var haldin ranghugmyndum um að maðurinn hefði átt þátt í dauða hans. Fram kom í málinu að umræddur hundur hafi verið þrettán ára gamall og líklega dáið vegna hás aldurs. Myndbandsupptökur sem voru teknar upp á vettvangi voru sýndar í dómsal við aðalmeðferð málsins. „Hundurinn minn er dáinn. Ég hef ekkert að gera en að vera leiðinleg við þig [...] þangað til þú ákveður að bæta ráð þitt,“ heyrðist hún segja í einu myndbandinu. Þá heyrðist maðurinn öskra ítrekað og í eitt skipti svaraði hún: „Hættu að öskra, hættu að öskra fíflið þitt.“ Fyrir dómi sagði Dagbjört að maðurinn hefði verið veiklulegur í aðdraganda andlátsins og hann verið sífellt dettandi. Hún taldi það líklega ástæðu mikilla áverka á líki mannsins. Réttarlæknir sagði að þau hefðu verið fá svæði á líkama mannsins þar sem ekki væru áverkar. Og að varðandi alvarlegustu áverkana væri nær ómögulegt að þeir hafi komið til fyrir slysni. Viðbragðsaðilar sem gáfu skýrslu fyrir dómi sögðu að eftir að þeir fóru á vettvang og hófu endurlífgunartilraunir á manninum hafi Dagbjört skyndilega staðið upp, arkað að hinum látna, og gefið honum kinnhest. Hún hafi sagt að hann „láti oft svona“, en lögreglumenn hafi síðan fjarlægt hana frá honum. Dagbjört hlaut tíu ára fangelsisdóm vegna málsins, en var sakfelld fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem leiddi til andláts en ekki manndráp. Í dómnum sagði að hún hefði leynt veigamiklum upplýsingum og reynt að koma í veg fyrir að hægt væri að varpa ljósi á málið. Hjón fundust látin á Neskaupstað Upp úr hádegi fimmtudaginn 22. ágúst fékk lögreglan á Austurlandi útkall vegna hjóna sem fundust látin í heimahúsi í bænum. Svo virðist sem einstaklingur, mögulega nágranni fólksins, hafi reynt að setja sig í samband við þau, en svo virst sem slökkt væri á símum þeirra. Viðkomandi hafi síðan farið að húsinu þeirra tekið eftir því að bíllinn þeirra var ekki við húsið. Fram hefur komið að hjónin hafi fundist látin á baðherbergi, og að miklir áverkar verið á þeim báðum. Lögreglan fékk upplýsingar um að sést hafi til manns, Norðfirðings á fimmtugsaldri, við hús hjónanna kvöldið áður. Skömmu seinna hafi þung bankhljóð heyrst úr íbúðinni. Leit hófst að bíl hjónanna í og í ljós kom að honum hafði verið ekið í átt að höfuðborgarsvæðinu. Norðfirðingurinn fannst blóðugur í bíl hjónanna að aka um Snorrabraut í Reykjavík. Þar var hann handtekinn af sérsveitinni, en hann mun hafa verið með ýmsa munu í eigu hinna látnu með sér, líkt og bankakort. Í skýrslutöku neitaði maðurinn sök. Hann sagðist hafa komið að hjónunum „svona“. Hann sagðist telja að þau hefðu ráðist á hvort annað, eða að einhver hefði ráðist á þau. Í upphafi fór maðurinn í gæsluvarðhald, en frá september hefur honum verið gert að vera vistaður á viðeigandi stofnun. Sautján ára stúlka lést eftir stunguárás Um hálfeittleytið aðfaranótt sunnudagsins 25. ágúst var greint frá því að lögreglan hafði verið með mikinn viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur á tólfta tímanum kvöldið á undan, þegar menningarnótt var haldin hátíðleg. Fram kom að um alvarlega líkamsárás væri að ræða. Daginn eftir var greint frá því að einn hefði verið handtekinn vegna málsins, sem varðaði stunguárás, og að þrjú ungmenni væru með áverka vegna hennar. Eitt þeirra væri með alvarlega áverka. Fram kom að allir þessir einstaklingar væru undir átján ára aldri. Um viku síðar lést hin sautján ára gamla Bryndís Klara Birgisdóttir af áverkum sínum. Andlát hennar og málið í heild sinni hefur vakið upp mikla umræðu um vopnaburð ungmenna Sextán ára drengur hefur síðan verið ákærður fyrir að verða henni að bana, og fyrir tvær aðrar tilraunir til manndráps fyrir að stinga tvö önnur ungmenni í sömu árás. Í ákærunni er atvikum málsins lýst þannig að fimm ungmenni hafi verið saman í bíl laust fyrir miðnætti á Menningarnótt. Drengurinn hafi brotið rúðu bílsins og stungið einn pilt ítrekað með hníf, bæði í öxl og brjóstkassa. Ungmennin hafi þá flúið úr bílnum en ein stúlka orðið eftir. Drengurinn hafi ráðist á hana og stungið í öxl handlegg og hendi. Að því loknu mun drengurinn hafa ráðist á Bryndísi Klöru. Honum er gefið að sök að stinga hana í gegnum hjartað. Annar landsliðsmaður sýknaður Albert Guðmundsson, einn besti knattspyrnumaður Íslands, mætti í dómsal Héraðsdóms Reykjavíkur þann 12. september síðastliðinn. Þar svaraði hann til saka vegna ákæru um nauðgun og neitaði sök. Aðdragandi aðalmeðferðar málsins var nokkur. Í ágúst 2023 var hann kærður fyrir kynferðisbrot. Héraðssaksóknari tók málið fyrir, en lét það niður falla í febrúar í ár. Ríkissaksóknari felldi síðan þá ákvörðun úr gildi og gerði héraðssaksóknara að höfða sakamál á hendur honum. Og í byrjun júlímánaðar var hann ákærður. Honum var gefið að sök að stinga fingrum í leggöng konu, sleikja kynfæri hennar, þrátt fyrir að hún hefði beðið hann um að hætta, grátið, og reynt að ýta honum af sér. Þann 10. október var dómur í málinu kveðinn upp þar sem Albert var sýknaður. Ríkissaksóknari hefur áfrýjað málinu til Landsréttar. Grunaður um að verða dóttur sinni að bana Íslenskur karlmaður á miðjum fimmtugsaldri hringdi á Neyðarlínuna um kvöldmatarleytið 15. september. Hann mun hafa verið óljós í máli sínu, óskýr um hvar hann væri staddur og hvað hafði gerst, en þó tilkynnt um andlát tíu ára gamallar dóttur sinnar. Lögreglan kom á vettvang skömmu síðar, en maðurinn var staddur á hrauni gegnt Vatnsskarðsnámu við Krýsuvíkurveg. Þar var maðurinn handtekinn og þá leituðu viðbragðsaðilar að stúlkunni sem fannst skammt frá. Strax hófust endurlífgunartilraunir sem báru ekki árangur. Maðurinn, sem heitir Sigurður Fannar Þórsson, er sagður hafa bent lögreglu á hvar hún væri stödd. Eftir að málið kom upp fór á stað fyrirferðamikill orðrómur um að andlát stúlkunnar tengdist einhvers konar uppgjöri í undurheimunum. Lögreglan fylgdi eftir ábendingum á þessa leið en þótti ekkert benda til þess að aðrir kæmu að málinu en faðirinn. Sigurður Fannar hefur verið ákærður fyrir manndráp í málinu. Umfangsmikill þjófnaður í Elko Hópur fólks er grunaður um að þjófnað í tveimur verslunum raftækjarisans Elko, í Lindum og Skeifunni, sem voru framin að kvöldi 22. september og aðfaranótt 23. sama mánaðar. Þýfi málsins er sagt hlaupa á mörgum milljónum króna, en þjófarnir eru sagðir hafa haft á brot dýr tæki, síma, og reyðufé. Vitni sem var að vinna við framkvæmdir í húsnæði Elko í Lindum segist hafa farið úr vinnu klukkan fjögur síðdegis 22. september og þá hafi allt verið í lagi. Þegar hann kom daginn eftir hafi verið búið að brjóta timburhlera á glugga húsnæðisins, og jafnframt var búið væri að opna peningaskáp sem var inni í versluninni. Í fyrstu voru sjö Rúmenar, bæði karlar og konur, handteknir vegna málsins. Þar af voru þrír handteknir eftir að hafa innritað sig í flug á Keflavíkurflugvelli. Aðrir tveir voru handteknir með þýfi á leið í Norrænu. Í kjölfar þess að málið kom upp lýsti lögreglan eftir tveimur mönnum. Skömmu eftir að tilkynning lögreglu þess efnis birtist sagðist hún hafa fengið upplýsingar um hverjir þeir væru. Einn þeirra sem er grunaður í málinu er undir rökstuddum grun lögreglu í sextán öðrum málum. Maðurinn er grunaður um heimilisofbeldi. Hann er talinn hafa ráðist með ofbeldi gegn dóttur sinni og barnsmóður. Hann er líka grunaður um fjölda þjófnaðarbrota og umferðarlagabrota. Þá hlaut hann skilorðsbundinn fangelsisdóm í September fyrir fjölda þjófnaðarbrota. Einnig liggur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunnar um brottvísun og þriggja ára endurkomubann mannsins til Íslands. Talinn hafa orðið móður sinni að bana skömmu eftir að hafa lokið afplánun Lögreglunni var tilkynnt um alvarlega líkamsárás í íbúð í fjölbýlishúsi Neðra-Breiðholti um miðnætti 23. september. Kona á sjötugsaldri fannst látin á vettvangi. Endurlífgunartilraunir báru ekki árangur. Maður um fertugt, sonur konunnar, var handtekinn á vettvangi. Hann er grunaður um að hafa ráðið henni bana. Sonurinn á sögu um ofbeldi í garð foreldra sinna. Hann var ákærður fyrir tilraun til manndráps fyrir að stinga föður sinn í bakið árið 2006. Þá var sýknaður vegna ósakhæfis. Árið 2022 hlaut maðurinn tveggja ára fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að ráðast gegn móður sinni, kynferðisbrot gegn unglingsstúlku, og brot gegn valdstjórninni. Maðurinn hafði setið í fangelsi þangað til í haust, en þá hafði hann lokið afplánun vegna þessa dóms sem hann hlaut árið 2022. Hann hafði setið inni í fangelsi allan afplánunartímann.
Annáll 2024 Dómsmál Lögreglumál Manndráp á Ólafsfirði Hnífaárás við Hofsvallagötu Andlát barns á Nýbýlavegi Grunaðir um skipulagningu hryðjuverka Stóra kókaínmálið 2022 Mál Davíðs Viðarssonar (Quang Le) Mál Mohamad Kourani Peningum stolið í Hamraborg Fjárkúgun í Reykholti Sólheimajökulsmálið Manndráp í Kiðjabergi Manndráp í Naustahverfi á Akureyri Landsliðsmenn sakaðir um kynferðisofbeldi Mál Alberts Guðmundssonar Mannslát til rannsóknar í Bátavogi Stunguárás við Skúlagötu Grunaður um að hafa myrt dóttur sína Þjófnaður í Elko Grunaður um að hafa banað móður sinni Sjóslys við Garðskaga 2024 Læknir stunginn í Lundi í Kópavogi Mest lesið „Sem þið höfðuð ekki pung til að geta staðið undir“ Innlent Kafarar sóttu mann úr bíl sem fór í höfnina Innlent Kristrún ekki sein í Kryddsíld: „Ég skil ekki hvernig þetta var hægt“ Innlent Hróshringur formanna: „Það liggur fyrir mér að verða markþjálfi“ Innlent Yazan Tamimi er maður ársins Innlent Áttræð kona sakar bæinn um mismunun vegna trúar Innlent Bak við tjöldin: Óheppileg hlátursköst og ráðherrar í ruglinu Innlent Kannast ekkert við ólgu innan flokksins vegna landsfundar Innlent Flokkur fólksins dalar eftir kosningar Innlent Vita ekki hvenær þau komast heim með líkamsleifar drengsins síns Innlent Fleiri fréttir Hróshringur formanna: „Það liggur fyrir mér að verða markþjálfi“ „Sem þið höfðuð ekki pung til að geta staðið undir“ Kannast ekkert við ólgu innan flokksins vegna landsfundar Yazan Tamimi er maður ársins Kristrún ekki sein í Kryddsíld: „Ég skil ekki hvernig þetta var hægt“ Fyrsti símafundurinn við utanríkisráðherra Úkraínu Kafarar sóttu mann úr bíl sem fór í höfnina Hér eru brennurnar á höfuðborgarsvæðinu Flokkur fólksins dalar eftir kosningar Árið gert upp í Kryddsíld 2024 Varnargarðsmenn maður ársins að mati lesenda Vísis og hlustenda Bylgjunnar Breytingar á fylgi stjórnarflokka, norðurljósadýrð og undirbúningur Kryddsíldar Vara við svikapósti í nafni Skattsins Hvar er opið um áramótin? Köstuðu flugeldum upp á svalir fólks Bak við tjöldin: Óheppileg hlátursköst og ráðherrar í ruglinu Áttræð kona sakar bæinn um mismunun vegna trúar Nokkura bíla árekstur á Vatnaleið Flestir ánægðir með Kristrúnu en mest óánægja með Bjarna Táningspiltur mögulega með reykeitrun eftir flugeldafikt Vita ekki hvenær þau komast heim með líkamsleifar drengsins síns Ákall eftir réttmætari dreifingu á arði Samfélag í sárum, ný könnun og kíkt á bak við tjöldin Vilja ekki fresta fundi í ljósi nýs raunveruleika í pólitík 3,7 milljónir fiska drápust eða var fargað Gæsluvarðhald í stóru fíkniefnamáli framlengt Laun hjúkrunarfræðinga nú sambærileg við BHM Öflugasta eftirlit í áratugi veltur á fjármögnun stjórnvalda Jón Steindór aðstoðar Daða Má Ríkisráð fundar ekki á morgun eins og hefð er fyrir Sjá meira