Fótbolti

Hákon 21. Ís­lendingurinn til að spila í efstu deild á Eng­landi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson er tuttugasti Íslendingurinn til að leika í ensku úrvalsdeildinni.
Hákon Rafn Valdimarsson er tuttugasti Íslendingurinn til að leika í ensku úrvalsdeildinni. Alex Pantling/Getty Images

Hákon Rafn Valdimarsson varð í gær 21. Íslendingurinn til að spila í efstu deild á Englandi.

Hákon kom inn af bekknum fyrir Brentford á 36. mínútu í markalausu jafntefli gegn Brighton vegna meiðsla aðalmarkvarðar liðsins, Mark Flekken.

Þetta var fyrsti leikur Hákons fyrir Brentford í ensku úrvalsdeildinni og gerði Gróttumaðurinn fyrrverandi vel í að halda marki gestanna hreinu í um það bil klukkustund í þessari sterku deild.

Það er ekki á hverjum degi sem við Íslendingar eignumst nýjan leikmann í ensku úrvalsdeildinni, en Hákon varð í gær aðeins 21. Íslendingurinn til að spila leik í efstu deild Englands. Albert Guðmundsson, sem fékk undanþágu til að leika tvo leiki sem áhugamaður með Arsenal árið 1946, var fyrstur Íslendinga til að afreka það.

Alls hafa sex íslenskir leikmenn leikið yfir hundrað leiki í ensku úrvalsdeildinni og er Hermann Hreiðarsson þeirra leikjahæstur með 332 leiki. Þar á eftir kemur Gylfi Þór Sigurðsson með 318 leiki og á eftir honum er Eiður Smári Guðjohnsen með 211 leiki.

Áðurnefndir Gylfi Þór og Eiður Smári eru markahæstu Íslendingarnir í ensku úrvalsdeildinni með 67 og 55 mörk og Heiðar Helguson er þriðji markahæstur með 28 mörk.

Íslendingar í efstu deild Englands

Hermann Hreiðarsson - 332 leikir og 14 mörk

Gylfi Þór Sigurðsson - 318 leikir og 67 mörk

Eiður Smári Guðjohnsen - 211 leikir og 55 mörk

Guðni Bergsson - 201 leikur og 10 mörk

Jóhann Berg Guðmundsson - 162 leikir og 10 mörk

Grétar Rafn Steinsson - 126 leikir og 4 mörk

Heiðar Helguson - 96 leikir og 28 mörk

Sigurður Jónsson - 75 leikir og 5 mörk

Ívar Ingimarsson - 72 leikir og 4 mörk

Aron Einar Gunnarsson - 51 leikur og 2 mörk

Arnar Gunnlaugsson - 45 leikir og 3 mörk

Brynjar Björn Gunnarsson - 43 leikir og 3 mörk

Þorvaldur Örlygsson - 37 leikir og 2 mörk

Jóhannes Karl Guðjónsson - 32 leikir og 2 mörk

Lárus Orri Sigurðsson - 29 leikir  og 0 mörk

Þórður Guðjónsson - 10 leikir og 1 mark

Jóhann Birnir Guðmundsson - 9 leikir og 0 mörk

Eggert Gunnþór Jónsson - 3 leikir og 0 mörk

Albert Guðmundsson - 2 leikir og 0 mörk

Rúnar Alex Rúnarsson - 1 leikur og 0 mörk

Hákon Rafn Valdimarsson - 1 leikur og 0 mörk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×