Enski boltinn

Segir Rashford hafa hafnað þremur til­boðum frá Sádi-Arabíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcus Rashford fagnar síðasta marki sínu Manchester United. Verða þau fleiri? Það er stóra spurningin.
Marcus Rashford fagnar síðasta marki sínu Manchester United. Verða þau fleiri? Það er stóra spurningin. Getty/Ash Donelon

Framtíð Marcus Rashford hjá Manchester United er í uppnámi en það verður ekki auðvelt að finna félag sem hefur efni á honum og launum hans.

Enskir fjölmiðlar hafa verið að orða Rashford við sádi-arabísku deildina enda peningar þar til að bjóða honum góð kjör.

Samkvæmt upplýsingum ítalska skúbbarans Fabrizio Romano þá hefur Rashford ekki áhuga á því að fara til Sádi-Arabíu.

Chris Wheeler, blaðamaður á Daily Mail, segir einnig frá því að Rashford hafi í raun þegar hafnað þremur tilboðum frá Sádi-Arabíu sem gætu skilað honum 35 milljónum punda í árslaun sem gera um sex milljarða króna.

Samkvæmt fyrrnefndum fréttum þá vill Rashford komast í deild og til liðs þar sem hann getur unnið sér aftur sæti í enska landsliðinu. Hann er líka sagður tilbúinn að spila áfram á Old Trafford.

Það er líklegast eins og staðan er núna að hann verði lánaður til liðs utan Englands.

Rashford hefur ekki komið við sögu í síðustu fjórum deildarleikjum United. Hann var utan hóps í fyrstu þremur leikjunum en sat allan tímann á bekknum í síðasta leik.

Það fylgir sögunni að United hefur aðeins skorað tvö mörk í þessum fjórum deildarleikjum og þau komu bæði í sigrinum á Manchester City 15. desember. Liðið hefur ekki skorað í þremur deildarleikjum í röð og tapaði þeim öllum á móti Bournemouth, Wolves og Newcastle.

Það gerir þetta enn verra fyrir Rashford að það sé ekki pláss fyrir hann í liðinu þrátt fyrir bitlausan sóknarleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×