Skoðun

Hvernig væri að Isavia setti við­skipta­vini sína í for­gang?

Ó. Ingi Tómasson skrifar

Forgangsröðun Isavia virðist á sumum sviðum vera nokkuð skökk. Við sem ferðumst á veturna með viðkomu í Leifsstöð (þrátt fyrir rándýra auglýsingu rétt fyrir áramótaskaupið eru reyndar ekki margar aðrar leiðir í boði) þurfum að reiða okkur á að komast út úr flugstöðinni komu megin að bíl, leigubíl eða rútu. Þegar færðin er eins og hún hefur verið að undanförnu á fólk erfitt með að fara langar leiðir með kerrur hlaðnar farangri vegna ömurlegra gönguleiða, hálku eða snjóþunga.

Hvernig væri?

Hvernig væri að Isavia setti farþega í fyrsta sæti með upphituðum og yfirbyggðum gönguleiðum að þeim svæðum þar sem faratækin eru?

Hvernig væri að Isavia endurnýjaði töskukerrurnar sem hafa verið í notkun um langt árabil og eru úr sér gengnar og ekki á færi allra að nota við erfiðar aðstæður?

Hvernig væri að einhverjir starfsmenn væru á komusvæði til aðstoðar farþega vegna bilaðra greiðsluvéla bílastæðagjalda eða til aðstoðar við fólk sem á erfitt með að komast úr flugstöðinni vegna hálku, snjóþunga og lélegra gönguleiða í átt að bílastæðum?

Hvernig væri að Isavia hugaði að öðru en að hámarka hagnaðinn á kostnað viðskiptavina sinna?

Hvernig væri að Isavia setti viðskiptavini sína í forgang?

Höfundur er ferðalangur.




Skoðun

Sjá meira


×