Enski boltinn

Kennir boltanum um slaka færanýtingu Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Puma boltinn sem notast er við í enska deildabikarnum.
Puma boltinn sem notast er við í enska deildabikarnum. getty/Stuart MacFarlane

Knattspyrnustjóri Arsenal, Mikel Arteta, telur að boltinn sem er notaður í enska deildabikarnum hafi haft áhrif á færanýtingu liðsins gegn Newcastle United.

Arsenal tapaði fyrir Newcastle, 0-2, í fyrri leik liðanna í undanúrslitum deildabikarsins í gær. Skytturnar fóru illa með færin sín í leiknum og Arteta telur að boltinn hafi átt þátt í því.

„Við skutum oft yfir og það er erfitt því þessir boltar svífa mikið. Þannig að það eru smáatriði sem við getum framkvæmt betur,“ sagði Arteta eftir leikinn á Emirates.

Puma framleiðir boltann sem er notaður í deildabikarnum en boltinn sem notast er við í ensku úrvalsdeildinni er frá Nike.

„Hann er öðruvísi. Hann er mjög frábrugðinn boltanum í ensku úrvalsdeildinni svo þú verður að aðlagast því hann svífur öðruvísi. Þegar þú snertir hann er gripið líka öðruvísi,“ sagði Arteta um boltann.

Arsenal átti 23 skot í leiknum gegn Newcastle en aðeins þrjú þeirra fóru á markið. Seinni leikur liðanna fer fram á St James' Park 5. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×