Enski boltinn

Liverpool vill fá Kimmich

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joshua Kimmich kom til Bayern München frá RB Leipzig fyrir áratug.
Joshua Kimmich kom til Bayern München frá RB Leipzig fyrir áratug. getty/Alexander Hassenstein

Joshua Kimmich, fyrirliði þýska landsliðsins, er á óskalista Liverpool. Samningur hans við Bayern München rennur út í sumar.

Kimmich, sem er 29 ára, hefur leikið með Bayern frá 2015, alls 414 leiki. Hann hefur ekki enn skrifað undir nýjan samning við Bæjara og ef hann gerir það ekki verður hann samningslaus í sumar.

Kimmich ætti ekki að eiga í vandræðum með að finna sér nýtt lið en samkvæmt Christian Falk, blaðamanni Bild, hefur Liverpool áhuga á honum.

Ekki er þó loku fyrir það skotið að Kimmich haldi kyrru fyrir hjá Bayern en hann á í viðræðum við félagið um nýjan samning.

Liverpool fékk aðeins einn leikmann, Federico Chiesa, í félagaskiptaglugganum í sumar og hefur ekki enn fengið leikmann í janúarglugganum.

Liverpool er með sex stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Bayern er á toppnum í þýsku úrvalsdeildinni, fjórum stigum á undan meisturum Bayer Leverkusen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×