Erlent

Búa sig undir það versta

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Öllum tiltækum ráðum verður beitt til að reyna að hemja eldana í rokinu sem er á leiðinni.
Öllum tiltækum ráðum verður beitt til að reyna að hemja eldana í rokinu sem er á leiðinni. AP Photo/Noah Berger

Íbúar í Los Angeles í Bandaríkjunum búa sig nú undir það að vindurinn fari að blása á ný þannig að gróðureldarnir sem enn brenna sæki í sig veðrið.

Þrír eldar brenna nú í borginni, sá stærsti, Palisades eldurinn hefur nú brennt um níutíu og þrjá ferkílómetra landsvæðis og slökkviliðsmenn hafa aðeins náð stjórn á litlum hluta hans, eða um fjórtán prósent eins og staðan var í nótt.

Karen Bass borgarstjóri LA sagði á blaðamannafundi í nótt að öllum tiltækum ráðum væri nú beitt til undirbúnings áður en veðrið versnar á ný.

Borgarstjórinn segir að búist sé við því að vindurinn verði sumstaðar nálægt fellibylsstyrk en búist er við því að mesta rokið verði í kvöld að íslenskum tíma.

Að minnsta kosti tuttugu og fjórir eru látnir og tuttugu og þriggja er nú saknað. Níu voru síðan handteknir í gærkvöldi fyrir gripdeildir sem hafa verið vandamál um alla borgina og einn er í haldi grunaður um íkveikju.


Tengdar fréttir

Að minnsta kosti 24 látnir

Búist er við að heiti og þurri vindurinn sem knýr áfram eldana í Los Angeles eigi eftir að magnast aftur á næstu dögum. Danskur fjölskyldufaðir syrgir heimili sitt í borginni líkt og þúsundir annarra. Að minnsta kosti 24 eru látnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×