Zubimendi er sagður hafa hafnað því að fara til Liverpool síðasta sumar en Arsenal hafði einnig áhuga á honum. Sá áhugi hefur ekki dofnað og samkvæmt Daily Mail er frágengið að Zubimendi fari til Arsenal í sumar.
Arsenal vill fá Zubimendi strax í þessum mánuði en Real Sociedad vill halda honum út tímabilið. Talið er að Skytturnar greiði 51 milljón punda riftunarverð í samningi miðjumannsins.
Zubimendi er 25 ára og hefur leikið með Real Sociedad allan sinn feril. Hann varð Evrópumeistari með Spáni í fyrra. Hjá Arsenal hittir Zubimendi fyrir samherja sinn úr spænska landsliðinu og fyrrverandi samherja sinn hjá Real Sociedad, Mikel Merino.
Arsenal hefur ekki fengið leikmann í janúarglugganum en félagið hefur verið orðað við ýmsa framherja. Þörfin á liðsauka framarlega á vellinum jókst til muna eftir að Gabriel Jesus meiddist í bikarleiknum gegn Manchester United á sunnudaginn. Talið er að Jesus hafi slitið krossband í hné og verði frá næstu mánuðina.
Bukayo Saka er einnig frá vegna meiðsla hjá Arsenal sem er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið tekur á móti erkifjendunum í Tottenham annað kvöld.