Forest og Liverpool skildu jöfn á City Ground í gær, 1-1. Chris Wood kom heimamönnum yfir á 8. mínútu en Diogo Jota jafnaði fyrir gestina á 66. mínútu, skömmu eftir að hann kom inn á sem varamaður.
Forest hefur komið öllum á óvart á tímabilinu og er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 41 stig, sex stigum á eftir Liverpool sem á leik til góða. Forest er eina liðið hefur unnið Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í vetur.
Slot segir að Forest í baráttu um Englandsmeistaratitilinn og taka verði liðið alvarlega sem titilkandítat.
„Þeir eru ekki í þessari stöðu vegna heppni. Þeir gera öllum liðum erfitt fyrir. Þeir hafa þegar spilað nokkra erfiða útileiki, gegn Manchester United og Manchester City, og tvisvar gegn okkur,“ sagði Slot.
„Það sýnir að þeir eru lið sem getur barist á toppnum. Ég held að þeir haft flesta leikmenn sína til taks allt tímabilið. Ég sé nánast alltaf sama byrjunarliðið og það er gott fyrir þjálfarateymið. Ef þeir geta haldið þessum sömu leikmönnum sé ég enga ástæðu fyrir því að þeir ættu að tapa fullt af stigum því það er erfitt að spila við þá.“
Næsti leikur Liverpool er gegn Brentford á útivelli á laugardaginn. Daginn eftir tekur Forest á móti botnliði Southampton.