Vigdísarþættir Vesturports, sem eru á dagskrá Ríkissjónvarpsins, hafa nánast undantekningarlaust verið lofaðir til skýjanna. Hallgrímur tekur öðrum þræði undir það en í grein á Vísi segist hann ekki geta setið undir því athugasemdalaust hvernig mynd er dregin upp af föður hans Helga Skúlasyni.
„Í þættinum bregður fyrir persónu sem ekki verður skilið öðruvísi en eigi að vera Helgi Skúlason. Samhengi persónunnar í þættinum er hins vegar ankannalegt svo ekki sé meira sagt. Honum er lýst sem þröngsýnum manni sem hafi ekki hugnast nýstárlegt leikverk Sartres Lokaðar dyr undir stjórn Vigdísar.“
Alger skrumskæling á hlut Helga
Hallgrímur segir að sér sé það fullljóst að handritshöfundar þurfi að svindla á sagnfræðinni en niðurstaðan sé ósmekkleg og í raun „bara alger skrumskæling á hlut Helga í starfi Leikfélagsins.“
Hallgrímur rekur að því hafi farið fjarri að Helga hafi verið uppsigað við nýjustu leikhússtrauma sem bárust hingað til lands úr Evrópu. Hann setti til að mynda upp hjá Leikfélaginu tvo einþáttunga eftir absúrdistann Ionesco árið 1961.
Og fljótlega eftir að hann kom til Leikfélagsins hafi hann sest í stjórn þess sem réði Svein Einarsson sem fyrsta leikhússtjóra félagsins 1963. Næstu árin vann Leikfélagið svo hvern sigurinn á fætur öðrum þar sem Helgi var ýmist leikari eða leikstjóri.
„Og Helgi kom sem sagt hvergi að sýningu leikhópsins Grímu á Lokuðum dyrum Sartre eins og sýnt er í þáttunum. Það verk var sýnt í Tjarnarbíói og tengdist ekkert Leikfélagi Reykjavikur,“ segir Hallgrímur.
Ástæða brotthvarfs ekki framúrstefnulegt verkefnaval Vigdísar
Þá víkur Hallgrímur að því að furðulegt megi heita að búa til þá fléttu að „Vigdís hafi fundið upp á því „snjallræði“ að bjóða Þjóðleikhúsinu starfskrafta Helga til að losna við hann.“
Staðreyndin sé sú að þau Helgi og Helga sögðu bæði starfi sínu lausu hjá Leikfélaginu sumarið 1976 án þess að vera komin í annað starf.
„Ástæðan var sannarlega ekki sú að þeim þætti verkefnaval félagsins undir stjórn Vigdísar of framúrstefnulegt, heldur fannst þeim félagið hafa horfið um of frá listrænum metnaði og snúast fullmikið um léttmeti og farsa (sem var meðal annars auðvitað til styrktar húsbyggingarsjóði félagsins).“
Uppfært 15:40
Rakel Garðarsdóttir, framleiðandi þáttanna, hafnar því alfarið að umrædd persóna, sem heitir Elmar í þáttunum, sé byggð á Helga Skúlasyni.