Körfubolti

„Fann að það héldu allir með okkur“

Sindri Sverrisson skrifar
Gleði Þórsara var ósvikin eftir að fyrsti Íslandsmeistaratitilinn var í höfn, Þorlákshöfn.
Gleði Þórsara var ósvikin eftir að fyrsti Íslandsmeistaratitilinn var í höfn, Þorlákshöfn. Stöð 2 Sport

Fyrir tæpum fjórum árum vann Þór Þorlákshöfn sinn fyrsta og jafnframt einn óvæntasta Íslandsmeistaratitil í sögu körfuboltans hér á landi. Heimir Snær Heimisson, stuðningsmaður liðsins, var að sjálfsögðu fenginn til að rifja upp sigurstundina þegar hann mætti í Körfuboltakvöld Extra í gærkvöld.

Heimir ræddi við þá Stefán Árna Pálsson og Tómas Steindórsson í þættinum í gær, um þá óhemju miklu gleði sem braust út vorið 2021 þegar Þór vann Keflavík í einvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

„Það er vídjó af mér þar sem við Heisi [Heiðar Snær Magnússon, körfuboltalýsandi] erum að knúsast og ég brotna niður í örmunum á honum,“ segir Heimir en brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: KBK Extra - Heimir rifjaði upp titilinn óvænta

„Þetta er eitthvað sem ég mun aldrei geta lýst. Við bjuggumst ekkert við þessu. Keflavík átti bara að hlaupa í burtu með titilinn. Það bjuggust allir við því, þeir líka. Maður fann líka að það héldu allir með okkur – allir nema Keflvíkingar,“ bætir Heimir við.

Hann segir titilinn hafa verið enn sætari í ljósi þess hve margir uppaldir Þorlákshafnarbúar voru í liðinu:

„Þetta lið var svo mikið byggt upp á okkar strákum. Þarna erum við bara með Drungilas, Larry Thomas og Callum Lawson. Restin eru Þorlákshafnarbúar. Það er rosalega fallegt líka.“

Þjálfari Þórs þá og nú er reyndar ekki heimamaður en það er Lárus Jónsson sem Heimir ræðir um af mikilli aðdáun:

„Það ætti að reisa styttu af Lalla. Hann verður aldrei í heitu sæti, því hann gerði þetta fyrir okkur. Enda höfum við alltaf, frá því að hann tók við, verið í topp fjórum eða að daðra við það. Áður en hann kom var Friðrik Ingi með okkur og við vorum að fara að falla.“

Brot úr þættinum má sjá hér að ofan en allur þátturinn er aðgengilegur áskrifendum að Stöð 2 Sport. Þættirnir eru sýndir á þriðjudagskvöldum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×