Leik lokið: KR 102 - 99 Þór Þ. | Heimasigur í spennutrylli

Siggeir Ævarsson skrifar
kr anton
vísir/Anton

KR bar sigur úr býtum gegn Þór Þorlákshöfn í miklum spennutrylli liðanna í Bónus deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Vesturbænum 102-99 sigur KR.

Liðin í miðri Bónus-deild karla, KR og Þór, mættust á Meistaravöllum í kvöld. Staða liðanna í deildinni gæti ekki verið mikið jafnari og leikurinn var einnig ansi jafn.

Þórsarar virkuðu beittari sóknarlega í byrjun, settu niður fimm þrista í fyrsta leikhlutanum, alla eins hreina og hugsast getur, ekkert nema net. Þessir þristar fleyttu þeim örlítið framar en KR en skrautleg flautukarfa frá Jason Gigliotti þýddi að munurinn var aðeins sex stig eftir fyrsta leikhluta, 24-30.

Heimamenn voru öllu líflegri sóknarlega í næsta leikhluta og virtust jafnvel ætla að taka leikinn yfir en Þórsarar voru aldrei langt undan og svöruðu áhlaupinu sem hafði komið KR yfir. Gestirnir náðu þó ekki að byggja upp mikið forskot og aftur kom skrautleg flautakarfa frá KR, í þetta skiptið frá Vlatko Granic og aðeins munaði tveimur stigum í hálfleik. Staðan 49-51 í hörkuspennandi leik.

Það var engu líkara en liðin hefðu ákveðið að keyra upp hraðann í seinni hálfleik og minnti leikurinn á köflum á borðtennisleik þar sem liðið skoruðu hratt og skiptust á að komast yfir. Að lokum kom þó góður 8-0 kafli hjá KR sem virtist slá Þórsara aðeins út af laginu.

KR-ingar skoruðu alls 33 stig í leikhlutanum og Veigar Áki kom muninum upp í ellefu stig áður en flautan gall, staðan 82-71 þegar tíu mínútur voru til stefnu.

Þórsarar voru þó ekki dauðir úr öllum æðum. Dabbi kóngur smellti í þrist og svo skoraði Mustapha Heron sjö stig í röð og munurinn allt í einu kominn niður í eitt stig og nóg eftir af leiknum, eða rúmar fimm mínútur.

KR-ingar reyndust að lokum sterkari á svellinu en tæpt var það. Þórsarar hættu aldrei og voru hársbreidd frá því að komast yfir en Jordan Semple brenndi af tveimur vítum þegar tæp mínúta var eftir og staðan 96-95.

KR-ingar lönduðu þessu að lokum, voru sterkir á línunni og lokaskot Tomsick var loftbolti.

Nánari umfjöllun og viðtöl á leiðinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira