Leik lokið: Valur - Álfta­nes 87-81 | Valur inn­byrti gríðar­lega mikil­vægan sigur

Hjörvar Ólafsson skrifar
valur anton
vísir/Anton

Valur hafði betur 87-81 þegar liðið fékk Álftanes í heimsókn í N1-höllina að Hlíðarenda í 14. umferð Bónus-deildar karla í körfubolta í kvöld.

Liðin voru jöfn að stigum með 10 stig fyrir þessa umferð líkt og ÍR en liðin sitja í áttunda til tíunda sæti deildarinnar. Barist var því um stig sem gætu fjarlægt liðin frá fallsvæðinu og fært þau um leið nær sæti í úrslitakeppninni.

Valsmenn fengu þau gleðitíðindi fyrir leikinn þegar þeir sáu Kristófer Acox hlaupa um meiðslalausan í búning en Kristófer spilaði í kvöld sínar fyrstu mínúturnar síðan hann varð fyrir meiðslum á hné í úrslitarimmu Vals gegn Grindavík síðastliðið vor.

Valur hafði frumkvæðið fyrstu tvo leikhlutana og var mest níu stigum yfir í fyrri hálfleiknum. Hörður Axel Vilhjálmsson og David Okeke sáu þó til þess að staðan var jöfn, 46-46, þegar liðin röltu til búningsherbergja í hálfleik.

Gestirnir frá Álftanesi komu svo sterkari til leiks inn í þriðja leikhuta og skoruðu fyrstu fimm stig leikhlutans. Það sem eftir lifði þriðja leikhlutans skiptust liðin á að leiða. Taiwo Badmus minnkaði muninn fyrir Val í eitt stig, 63-64, með þriggja stiga körfu undir lok þriðja leikhluta.

Valur var svo sterkari á svellinu undir lok leiksins en þar voru Kristinn Pálsson og Adam Ramstedt í aðalhlutverki. Ramstedt kláraði leikinn endanlega með stigum sínum af vítalínunni. 

Valur er þar af leiðandi með 12 stig líkt og ÍR í áttunda til níunda sæti deildarinnar en Breiðhyltingar unnur óvæntan sigur gegn toppliði Stjörnunnar fyrr í kvöld. Álftanes er hins vegar í tíunda sæti með 10 stig.

Atvik leiksins

Kristinn Pálsson setti fjögur stig í röð á krúsíal tíma en í sókninni þar á undan hafði skot hans verið verið varið. Kristinn lét það ekki á sig fá og kom Val yfir þegar skammt var eftir Adam Ramstedt kom Val svo endanlega yfir línuna af vítalínunni.  

Stjörnur og skúrkar

Taiwo Badmus var stigahæstur í jöfnu liði Vals með 20 stig en áðurnefndur Kristófer Acox er greinilega nálægt því að öðlast fyrri styrk eftir langa veru á meiðslalistanum. Kristófer spilaði rúmar 18 mínútur í sínum fyrsta leik síðan í maí á síðasta ári. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Jóhannes Páll Friðriksson, Jakob Árni Ísleifsson og Bjarni Rúnar Lárusson, dæmdu leikinn prýðilega en eins og við var að búast miðað við mikilvægi leiksins voru þjálfarar og leikmenn liðanna ekki ávallt sáttir við störf þeirra og ákvarðanir. Þeir fá sjö í einkunn. 

Stemming og umgjörð

Ágætlegar var mætt í Valsheimilið og andrúmsloftið var spennuþrungið. Kappið bar ekki fegurðina ofurliði sem er það sem mestu máli skiptir þegar lið leiða saman hesta sína í kappleik sem skiptir þá sem taka þátt í honum miklu máli. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira