Enski boltinn

Samingur Haaland slæmar fréttir fyrir Alan Shearer

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erliong Haaland þarf vissulega að skora 171 mark í viðbót til að ná meti Alan Shearer.
Erliong Haaland þarf vissulega að skora 171 mark í viðbót til að ná meti Alan Shearer. Getty/Visionhaus/Serena Taylor

Alan Shearer er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar fyrr og síðar. Harry Kane var að nálgast metið þegar hann fór til Bayern München en nýjustu fréttir af markakóngi Manchester City eru ekki þær bestu fyrir Shearer.

Shearer skoraði á sínum tíma 260 mörk í 441 leik í ensku úrvalsdeildinni. Hann lék fjórtán ár í deildinni.

Haaland er á sínu þriðja tímabili í ensku úrvalsdeildinni en hefur þegar skorað 79 mörk í aðeins 87 leikjum.

Haaland hefur skorað 0,9 mörk í leik en Shearer var með 0,58 mörk í leik.

En af hverju eru menn að velta fyrir sér meti sem Haaland er 171 mark frá því að jafna?

Jú Haaland var að skrifa undir nýjan níu og hálf árs samning við Mancester City eða til ársins 2034. Hann fær því níu og hálf tímabil í viðbót til að ná meti Shearer.

„Ef hann verður svo lengi í deildinni þá er enginn vafi að hann tekur metið af mér,“ sagði Alan Shearer við BBC Sport.

„Metið mitt mun falla einn daginn. Það gæti einhver annar náð því áður en Haaland kemst þangað, Harry Kane eða Mohamed Salah. Það voru frábærir markaskorarar áður en ég fæddist sem náðu frábærri markatölfræði líka,“ sagði Shearer.

„Ég er alveg viss um að metið mitt fellur,“ sagði Shearer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×