Upp­gjörið: Valur - Aþena 63-61 | Sluppu með sigur í sögu­legum leik

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Guðbjörg Sverrisdóttir varð í kvöld leikjahæsta kona í sögu úrvalsdeildarinnar.
Guðbjörg Sverrisdóttir varð í kvöld leikjahæsta kona í sögu úrvalsdeildarinnar. vísir / anton brink

Valur vann Aþenu 63-61 eftir æsispennandi leik í fimmtándu umferð Bónus deildar kvenna. Aþenukonur grófu sér djúpa holu í upphafi en virtust ætla að stela sigrinum undir lokin. Svo varð ekki og Guðbjörg Sverrisdóttir endaði á því að skora síðustu stigin, í leiknum sem gerði hana að leikjahæsta leikmanni í sögu úrvalsdeildarinnar. 

Aþena byrjaði leikinn skelfilega, tapaði boltanum í sífellu og lenti strax nokkuð langt á eftir Valskonum. Þjálfaranum þótti nóg komið eftir aðeins fimm mínútur, blés til leikhlés og lagði sínum konum nokkur vel valin orð í eyra.

vísir / anton brink
vísir / anton brink

Eftir það batnaði spilamennskan til muna, varnarleikurinn sérstaklega og Valskonur hættu að fá greiða leið að körfunni í hverri sókn.

vísir / anton brink
vísir / anton brink
vísir / anton brink

Það sem eftir lifði var leikurinn mjög jafn. Orkustigið hátt, mikil barátta, ákefð og harka í varnarleiknum. Aþena skaut mikið fyrir utan, Valur leitaði frekar leiða að körfunni, en heilt yfir lítið skorað.

Valskonur héldu fimm til tíu stiga forystu alveg þar til í fjórða leikhluta, þegar Aþena skellti í lás og fékk aðeins á sig sjö stig á heilum tíu mínútum. 

Eftir að hafa verið undir allan leikinn komst Aþena svo yfir þegar aðeins um mínúta var eftir, 60-61.

Jizelle Thomas skoraði þá mikilvæg stig fyrir Val og kom þeim aftur yfir. Lynn Peters klikkaði svo undir körfunni í næstu sókn Aþenu og braut í kjölfarið á Guðbjörgu Sverrisdóttur, hún fór á línuna og breikkaði bilið í tvö stig, 63-61.

vísir / anton brink

Aþena hafði aðeins 3,2 sekúndur til að taka lokaskot leiksins og tókst það ekki. Boltinn var gefinn upp á topp vítateigsins, síðan áframsendur tvisvar og endaði úti í horni, en tíminn var runninn út áður en skotið fór loksins upp í loft.

Viðtöl

„Ef við erum undir þá getum við spilað, ef við erum yfir þá verða allir rosa hræddir“

Brynjar Karl Sigurðsson, þjálfari Aþenu.vísir / anton brink

„Við höfum gert þetta svolítið í vetur. Ef við erum undir þá getum við spilað, ef við erum yfir þá verða allir rosa hræddir, og þetta er ekki leikur fyrir hræðslupúka. Fólk verður bara að átta sig á því, að ef þú ætlar að spila þennan leik þarftu að vera alveg rock solid. Ef þú ert stressaður, þá ertu bara illa undirbúinn,“ sagði Brynjar Karl, þjálfari Aþenu, eftir leik.

„Við æfum vel og höfum sýnt það í vetur að við getum gert þetta allt, but you got to bring it sko. Sóknarlega, þá bara sérðu hvað við erum skíthræddar, þú sást það er það ekki? Skíthræddar í sókn. Það skorar enginn á okkur, en við skorum ekki neitt,“ hélt hann svo áfram.

Þrátt fyrir hræðsluna voru hans konur enn inni í leiknum á lokasekúndunum og fengu tækifæri til að stela sigrinum. Niðurstaðan varð þó að það tókst ekki að koma upp skoti áður en klukkan rann út. Leikmenn áframsendu boltann tvisvar í stað þess að skjóta sjálfar, sem er væntanlega ekki það sem þjálfarinn teiknaði upp. Þetta var sjöunda deildartap Aþenu í röð og Brynjar veit ekki hvernig á að snúa því gengi við.

„Hvernig ætlum við að gera það? Ertu að spyrja mig hvort við ætlum að vinna leik? Ég veit það ekki, það er það sem maður er að reyna að gera hérna, að finna út úr þessu,“ sagði Brynjar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira