Erlent

Í­hugar að leggja viðbótartoll á allar vörur frá Kína

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Trump hefur verið iðinn síðustu tvo daga og gefið út fjölda umdeildra tilskipana.
Trump hefur verið iðinn síðustu tvo daga og gefið út fjölda umdeildra tilskipana. AP/Julia Demaree Nikhinson

Donald Trump Bandaríkjaforseti segist nú vera að íhuga að leggja tíu prósent viðbótartoll á allar vörur frá Kína frá og með næstu mánaðarmótum. Í ræðu sinni á setningarathöfninni í fyrradag fór fremur lítið fyrir tollatali en hann talaði fjálglega um tolla í kosningabaráttunni.

Trump var spurður út í þetta á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gærkvöldi og þar sagðist hann síður en svo orðinn afhuga hugmyndinni. Hann segir að tollarefsingin sé nauðsynleg vegna þess að Kínverjar séu að senda fentanýl og önnur ávanabindandi efni til Bandaríkjanna, í gegnum Mexíkó og Kína. 

Trump hefur áður sagst ætla að setja enn hærri tolla á síðastnefndu löndin tvö, eða upp á 25 prósent. Það eigi að vera einskonar refsing fyrir að leyfa óheftan straum innflytjenda og eiturlyfja til Bandaríkjanna. 

En þótt tollamálin virðist vefjast fyrir forsetanum hafa stofnanir ekki beðið boðanna með að fara eftir forsetatilskipunum sem hann undirritaði á sínum fyrsta degi í embætti. 

Ein þeirra var að héreftir væru bara tvö kyn í Bandaríkjunum, karl og kona. Nú þegar hefur vefsíðu þar sem hægt er að sækja um vegabréf í Bandaríkjunum verið breytt á þann hátt að nú er aðeins hægt að velja um þessi tvö kyn, ólíkt því sem áður var, en þá var hægt að velja óskilgreint, eða annað. 

Einnig hefur upplýsingasíðu hjá FBI alríkislögreglunni verið eytt en þar var fjallað um árásina á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar 2021 og eftirmál hennar. Sú síða, þar sem einnig var lýst eftir grunuðu fólki er horfin, enda hefur Trump náðað næstum alla sem ákærðir voru fyrir aðild að óeirðunum og kallað þá bandarískar frelsishetjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×