Erlent

Túaregar björguðu spænskum manni úr klóm Íslamska ríkisins

Samúel Karl Ólason skrifar
Joaquín Navarro Cañada með nokkrum uppreisnarmönnum FLA.
Joaquín Navarro Cañada með nokkrum uppreisnarmönnum FLA. FLA

Spænskum manni sem rænt var í Alsír var frelsaður af uppreisnarmönnum í Malí, skömmu áður en selja átti hann til vígamanna Íslamska ríkisins. Hann var svo fluttur aftur til Alsír í gær og færður yfirvöldum þar.

Joaquín Navarro Cañada, er rúmlega sextugur fornleifafræðingur en honum var rænt í Alsír, nærri landamærum Malí þann 14. janúar. Þá var hann þar í fríi og var honum rænt af glæpamönnum sem ætluðu sér að selja hann til vígamanna Íslamska ríkisins á Sahel-svæðinu.

El Mundo segir að Canada hafi verið flogið til höfuðborgar Alsír og þar hafi hann verið færður í hendur Spánverja.

Spænski miðillinn El País segir Túarega hafa bjargað fornleifafræðingnum í samvinnu við CNI, Leyniþjónustu Spánar. Um leið og Cañada var rænt munu starfsmenn CNI hafa haft samband við uppreisnarhóp Túarega í Malí sem kallast Azawad Liberation Front (FLA).

Sá hópur hefur um árabil barist fyrir eigin ríki í norðurhluta Malí og á það ríki að kallast Azawad.

Einn talsmanna FLA sagði frá því að glæpamennirnir sem rændu Cañada hafi flutt hann til Azawad á leið þeirra til móts við ISIS-liða. Hann hafi verið frelsaður af FLA-liðum á mánudagskvöldið.

Í frétt France24 kemur fram að leiðtogar Íslamska ríkisins á Sahel-svæðinu hafi nýverið gefið út ákall eftir vestrænum gíslum. Blaðamaður miðilsins sem starfar á svæðinu segir ISIS bjóða umtalsverða fjármuni fyrir hvern gísl sem þeir fá afhentan.

Hann segir mannræningjana hafa verið sjö talsins frá Malí og Alsír og allir kringum tvítugt. Þeir munu hafa skilið Cañada eftir á tilteknum stað sem FLA-liðar bentu þeim á, í skiptum fyrir það að vera ekki eltir uppi af uppreisnarmönnunum.

Ræningjunum var einnig gert að afhenda Cañada aftur vegabréf hans, síma og aðrar eigur.

Austurrísk kona sem rænt var í Níger, nærri landamærum Alsír, þann 12. janúar var ekki jafn heppin og Cañada. Mannræningjar hennar eru sagðir hafa náð að flytja hana til yfirráðasvæðis ISIS á Sahel-svæðinu.

Mikil óreiða á Sahel-svæðinu

Túaregar eru þjóðflokkur sem heldur til í eyðimörkinni milli Alsír og Malí og hafa þeir lengi barist fyrir eigin ríki. Mikil óreiða ríkir á Sahel-svæðinu um þessar mundir en þar hefur vígahópum vaxið mjög ásmegin á undanförnum árum.

Tveir hópar eru umsvifamestir á svæðinu. Það eru hinn áðurnefndi Jama‘at Nusrat al-Islam wal-Muslimin eða JNIM, sem tengist al-Qaeda, og Íslamska ríkið í Sahel eða IS-S.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×