Innlent

„Það á auð­vitað að fara að lögum“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Daði Már Kristófersson er fjármálaráðherra. Hann segir fyrirkomulagi á styrkjum til stjórnmálaflokka hafa verið breytt. Flokkur fólksins fái því engan styrk fyrir árið 2025 miðað við núverandi skráningu.
Daði Már Kristófersson er fjármálaráðherra. Hann segir fyrirkomulagi á styrkjum til stjórnmálaflokka hafa verið breytt. Flokkur fólksins fái því engan styrk fyrir árið 2025 miðað við núverandi skráningu. Vísir/Einar

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir að fara eigi að lögum og að Flokkur fólksins fái ekki 70 milljóna króna styrk úr opinberum sjóðum eins og til stóð, þar sem hann uppfyllir ekki lagaskilyrði til þess.

Fyrr í vikunni staðfesti skrifstofa Alþingis að Flokkur fólksins uppfyllti ekki skilyrði fyrir úthlutun fjárstyrkja til stjórnmálaflokka. Flokkurinn hefur þegið 240 milljónir króna þrátt fyrir að vera enn skráður sem „félagasamtök“ í fyrirtækjaskrá. Til stóð að flokkurinn fengi 70 milljónir í vikunni, fyrir árið 2025. 

Inga Sæland hefur síðan sagt að til standi að breyta skráningu flokksins á landsfundi í næsta mánuði. Flokkurinn sé ekki á flæðiskeri staddur.

Fjármálaráðherra var spurður út í málið, og hvort honum þætti alvarlegt að flokkurinn hefði fengið um 240 milljónir króna í opinbera styrki, þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrðin. 

„Það á auðvitað að fara að lögum og verklagi hjá ráðuneytinu og öðrum þeim aðilum sem greiða út styrki samkvæmt þessum lögum hefur verið breytt. Síðan verður bara að yfirfara málið í heild sinni,“ sagði Daði Már að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Flokkurinn muni því ekki fá greidda styrki fyrir þetta ár, eftir að breytingar voru gerðar á verklaginu.

„Ekki fyrr en það hefur þá verið gerð bragarbót og þau uppfylla skilyrða laganna,“ sagði Daði. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×