Skoðun

Aukum virðingu Al­þingis, hættum þessum sandkassaleik!

Þóra Andrésdóttir skrifar

Nú fer Alþingi að koma saman aftur. Virðing Alþingis er því miður orðið ansi lítil. Sumir þingmenn jafnvel skrópa, og eru meira og minna í símanum.

Alþingismenn eru kosnir af þjóðinni. Verkefni þeirra er að vinna fyrir þjóðina, að hagur hennar verði sem bestur. Allir Alþingismenn eiga að vinna að því markmiði, bæði ráðherrar og aðrir þingmenn, hvort sem þeir eru í meiri-eða minnihluta. Mér finnst því miður það ekki vera raunin. Í staðinn fyrir að vinna saman að þessu markmiði, er alltaf verið að berjast um völdin, hver ræður og hver gerir hvað. Það fer alltof oft mikill tími í það og ekkert gerist. Mér finnst að það ætti að hætta að nota orðið stjórnarandstöðu um minnihlutann. Það virkar ekki jákvætt. Það hljómar eins og að minnihlutinn eigi alltaf að vera í andstöðu við stjórnina. Hann þarf ekki endilega vera í andstöðu við stjórnina, þó hann greini mögulega á um leiðina. Þá þarf bara að finna út úr því og miðla málum, til að það sé best fyrir þjóðina, en ekki fyrir sérhagsmuni. Þó þingmenn mismunandi flokka séu ósammála um margt, þá hljóta þeir að geta sameinast um aðal verkefnin, sem eru bráðnauðsynleg.

Þjóðin kaus þingmennina til að gæta að þjóðarhag. Allir þingmenn þurfa að mæta og það ætti að vera símabann eins og í skólum. Þeir í minnihlutanum hafa líka hlutverk, en ekki eins og Sigurður Ingi hélt, að hann væri bara kominn í frí þar sem hann var ekki lengur í stjórn og kominn í minnihluta. Hann á auðvitað að halda áfram að vinna að því að gæta að hag þjóðarinnar, með meirihlutanum, en auðvitað veita honum aðhald ef til þess þarf, en ekki bara til að vera á móti! Eins og orðið stjórnarandstaða virðist þýða!

Ég leyfi mér að vera bjartsýn um framtíðina og er að vona að nú verði breyting á. Mér sýnist að með Kristrúnu við stjórnvölinn verði Alþingi samstíga og samhent. Stjórnin, minnihlutinn og aðrir þingmenn, að vinna að stóru verkefnunum í þágu þjóðarinnar en ekki sérhagsmuna. Að verkin verði látin tala.

Höfundur er (h)eldri borgari.




Skoðun

Sjá meira


×