Handbolti

Viktor Gísli besti maður Ís­lands á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson átti magnað heimsmeistaramót og er án vafa í hópi bestu markvarða mótsins.
Viktor Gísli Hallgrímsson átti magnað heimsmeistaramót og er án vafa í hópi bestu markvarða mótsins. Vísir/Vilhelm

Það kemur líklega fáum á óvart hver var efstur í einkunnagjöf Vísis á heimsmeistaramótinu í handbolta. Enginn lék betur hjá strákunum okkar á HM í ár en markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson.

Íslenska liðið datt úr leik í gærkvöldi eftir að Króatar unnu Slóvena í lokaleik milliriðilsins. Íslenska liðið vann fimm af sex leikjum sínum en eina tapið kostaði liðið sæti í átta liða úrslitum.

Vísir var með einkunnagjöf eftir alla sex leiki íslenska liðsins á mótinu og við höfum nú tekið saman meðaleinkunn okkar leikmanna á HM 2025.

Við áttum einn leikmann í heimsklassa á mótinu. Á því er enginn vafi.

Viktor Gísli Hallgrímsson endaði heimsmeistaramótið á einn einum stórleiknum og varð með hæstu meðaleinkunnina af strákunum okkar.

Það sorglega við annars stöðuga frammistöðu Viktors Gísla voru þessar tíu hræðilegu mínútur í fyrri hálfleik á móti Króötum þar sem hann snerti ekki bolta. Króatar skorðu úr öllum sjö skotunum á hann og Snorri Steinn Guðjónsson setti hann á bekkinn.

Það má deila um hvort hann hafi látið hann hvíla of lengi en Viktor kom mjög sterkur inn í seinni hálfleik. Það er ekki mikið hægt að finna að frammistöðu hans í hinum ellefu hálfleikjum mótsins.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson varð næsthæstur í einkunnargjöfinni en hann átti mjög flotta innkomu í þetta mót. Það sáu allir, og hann viðurkenndi það líka sjálfur, að hann hafi komið með öðru hugarfari inn í þetta mót.

Hann skilaði leiðtogahlutverki sínu frábærlega á þeim mínútum sem hann spilaði. Góð mörk og fallegar stoðsendingar voru íslenska sóknarleiknum afar dýrmætar. Aron sýndi líka að að ef áhuginn er staðar hjá honum þá er þetta hlutverk sem hann getur skilað með glans næstu árin.

Það var líka gaman að sjá frammistöðu hins unga Orra Freys Þorkelssonar í vinstra horninu á sínu fyrsta heimsmeistaramóti en hann var þriðji hæstur í einkunnagjöfinni.

Orri Freyr kláraði sín færi vel í næstum því öllum leikjunum og frammistaða hans skar sig úr meðal annarra hornamanna íslenska liðsins sem náðu sér ekki á strik.

Í næstu sætum voru síðan menn sem voru með mikla ábyrgð á sínum herðum. Viggó Kristjánsson er þar fremstur en hann lék vel á báðum endum vallarins. Varnarmennirnir Elvar Örn Jónsson og Ýmir Örn Gíslason deildu síðan fimmta sætinu en vörnin stóð oftast og féll með frammistöðu og samvinnu þeirra.

Hér fyrir neðan má sjá meðaleinkunn þeirra nítján leikmanna sem spiluðu í búningi Íslands á heimsmeistaramótinu.

  • Meðaleinkunn íslensku strákanna í leikjunum sex:
  • 1. Viktor Gísli Hallgrímsson 4,67
  • 2. Aron Pálmarsson 4,20
  • 3. Orri Freyr Þorkelsson 4,17
  • 4. Viggó Kristjánsson 4,00
  • 5. Elvar Örn Jónsson 3,83
  • 5. Ýmir Örn Gíslason 3,83
  • 7. Janus Daði Smárason 3,67
  • 8. Gísli Þorgeir Kristjánsson 3,50
  • 8. Einar Þorsteinn Ólafsson 3,50
  • 10. Óðinn Þór Ríkharðsson 3,00
  • 10. Bjarki Már Elísson 3,00
  • 10. Elliði Snær Viðarsson 3,00
  • 10. Stiven Tobar Valencia 3,00
  • 14. Sigvaldi Guðjónsson 2,75
  • 15. Þorsteinn Leó Gunnarsson 2,67
  • 15. Haukur Þrastarson 2,67
  • 17. Sveinn Jóhannsson 2,50
  • 18. Teitur Örn Einarsson 2,33
  • 19. Björgvin Páll Gústavsson 2,00

Tengdar fréttir

Ein­kunnir Strákanna okkar á móti Króatíu: Hér varð hrun

Eftir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína á HM á íslenska karlalandsliðið í handbolta allt í einu litla möguleika á að komast í átta liða úrslit eftir stórt tap fyrir Króatíu, 32-26, í Arena Zagreb í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×