Fjarvera Jóhanns Þórs á hliðarlínunni í leiknum gegn Tindastól í Síkinu í síðustu umferð vakti athygli. Í þeim leik gekk allt á afturfótunum hjá Grindavík en það er góð og gild ástæða fyrir fjarveru Jóhanns.
„Ég datt af hestbaki og fékk vægan heilahristing. Er svona rétt að skríða saman. Ætli það sé ekki svipað ástand á mér og Jeremy Pargo (nýjum leikmanni Grindavíkur) fyrir leikinn gegn Stjörnunni, bundnar vonir við að ég verði þarna á morgun en þetta er metið frá degi til dags. Ég er allur að koma til en púlsinn fer kannski óþægilega hátt upp þegar að maður þjálfar og það er kannski ekki mælt með því eftir svona. En ég reikna allavegana með því að vera á bekknum, hversu mikið ég skipti mér af kemur bara í ljós.“
Um leikinn gegn Tindastól, sem Grindavík tapaði með átján stigum, hafði Jóhann þetta að segja:
„Við vorum bara heilt yfir mjög slakir. Erum að díla við ákveðna hluti sem við höfum verið að vinna í og höfum verið að gera núna á nýju ári. Við höfum ekki séð þær framfarir sem við hefðum viljað sjá en bindum vonir við að þessar breytingar sem við gerum núna komi með eitthvað að borðinu. Bara svo ég segi það þá var kominn pirringur í hópinn varðandi ákveðna hluti sem voru ekki að ganga. Ég bindi vonir við að þessar breytingar lagi það. Að menn fari að sjá ljósið og brosa aftur.“
Og geri ykkur þar af leiðandi samkeppnishæfari um Íslandsmeistaratitilinn?
„Já klárlega. Við, eins og mörg önnur lið, stefnum á þann stóra. Eins og komið hefur fram í viðtölum við aðra þjálfara yfir tímabilið hefur deildin sjaldan eða aldrei verið eins sterk. Miðað við það sem að maður heyrir í kringum sig á hún eftir að styrkjast enn frekar áður en að félagsskiptaglugginn lokar. Það er bara stuð og stemning framundan.“