Skytturnar gengu frá Englandsmeisturunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Myles Lewis-Skelly fagnaði sínu fyrsta úrvalsdeildarmarki með því að fagna að hætti Haaland.
Myles Lewis-Skelly fagnaði sínu fyrsta úrvalsdeildarmarki með því að fagna að hætti Haaland. Alex Pantling/Getty Images

Arsenal vann ótrúlegan 5-1 sigur er liðið tók á móti Englandsmeisturum Manchester City í stórleik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Það tók heimamenn ekki nema 104 sekúndur að brjóta ísinn þegar Skytturnar nýttu sér klaufagang í vörn City og Martin Ødegaard skilaði boltanum í netið.

Bæði lið fengu tækifæri til að bæta mörkum við í fyrri hálfleik, en inn vildi boltinn ekki og staðan í hálfleik því 1-0.

Englandsmeistararnir voru með lífsmarki í upphafi síðari hálfleiks og Erling Braut Haaland jafnaði metin fyrir liðið á 55. mínútu. Gestirnir gátu þó ekki fagnað of lengi því Thomas Partey endurheimti forystu heimamanna rétt um mínútu síðar, með skot sem hafði viðkomu í varnarmanni.

Meistararnir virtust rotaðir eftir þetta og heimamenn gengu á lagið. Myles Lewis-Skelly skoraði sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni á 62. mínútu og á þeirri 76. bætti Kai Havertz fjórða marki liðsins við.

Það var svo varamaðurinn Ethan Nwaneri sem rak síðasta naglann í kistu City-manna með marki á þriðju mínútu uppbótartíma og þar við sat.

Arsenal situr í öðru sæti deildarinnar með 50 stig eftir 24 leiki, sex stigum á eftir toppliði Liverpool, sem þó á leik til góða.

Englandsmeistarar Manchester City sitja hins vegar í fjórða sæti með 41 stig og ljóst að titilvörn þeirra er að verða að engu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira