Skipin hafa verið við loðnumælingar suðaustan- og austan við land frá mánudegi til föstudags þessarar viku. Markmiðið var að fá endurtekna mælingu á magn loðnu í megingöngunni á þeim slóðum til samanburðar við niðurstöður mælinga í vikunni á undan.

Fram kemur í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun að bæði skipin hafi farið yfir allt svæðið eftir mismunandi leiðarlínum og því sé um tvær óháðar mælingar á magninu þar. Bráðabirgðaniðurstöður sýni ívið lægra mat á stærð stofnsins en í fyrri mælingum.
„Það er því ljóst að niðurstöðurnar munu leiða til óbreyttrar ráðgjafar um engar veiðar,“ segir í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.
Hafrannsóknastofnun ráðgerir að Árni Friðriksson fari til loðnuleitar norður að landinu öðru hvoru megin við næstu helgi.
Guðmundur Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknarstofnunar sagði í samtali við fréttastofu í síðustu viku að góð loðnuvertíð geæti skilað þjóðarbúinu um 60 milljörðum á tveimur mánuðum en léleg um 20 milljörðum. Yrði loðnubrestur aftur eins og í fyrra þýði það engar tekjur og það sjáist á hagtölum.