„Það lá fyrir þegar fundur hófst klukkan eitt í dag að samninganefndir ríkisins og sveitarfélaganna höfðu samþykkt það sem ég lagði upp með í innanústillögu að kjarasamningi og lagði fram á fimmtudag. Samþykki Kennarasambandsins lá hins vegar ekki fyrir þegar fundi lauk í kvöld og lagði sambandið fram ákveðnar kröfur á skilmálum þeirrar vegferðar sem ég lagði upp með,“ sagði Ástráður.
Ríkissáttasemjari vildi ekki leggja mat á hvort fundarhöld morgundagsins gætu dugað til að ná samkomulagi. Boðaðar verkfallsaðgerðir kennara í leik- og grunnskólum hefjast hins vegar á mánudagsmorgun að óbreyttu.
Ríkissáttasemjari vildi heldur ekki leggja neitt mat á það hvort líkur væru á að verkfallsaðgerðum verði frestað dragist fundarhöld á langinn á morgun.
Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands sagði að loknum fundi að ríkissáttasemjari hefði mælst til þess að deiluaðilar ræddu ekki við fjölmiðla.