Samkvæmt upplýsingum Vísis kveður Kenney Ísland í dag en hann hefur ekki þótt standa undir væntingum í Bónus-deildinni í körfubolta.
„Fógetinn“ skoraði 10,9 stig að meðaltali í leikjunum sextán sem hann spilaði í deildinni, tók 4,3 fráköst og gaf 2,2 stoðsendingar.
Valsmenn hafa smám saman verið að endurheimta Joshua Jefferson, sem sleit krossband í hné í febrúar í fyrra, og veltu menn vöngum yfir því hvernig Valur ætlaði að takast á við það að vera með tvo bandaríska leikmenn.
Jefferson meiddist skömmu eftir að félagaskiptaglugginn lokaðist á síðustu leiktíð, og Valur gat því ekki fengið mann í hans stað, en hvert lið má hafa einn bandarískan leikmann innan vallar hverju sinni samkvæmt reglum KKÍ.
Valur varð engu að síður Íslandsmeistari í fyrra og þar með fyrsta liðið í 34 ár til að vinna titilinn án Bandaríkjamanns.
Jefferson og Sherif spiluðu tvo deildarleiki og einn bikarleik saman, og gátu þá skiljanlega ekki verið innan vallar á sama tíma. Liðið vann alla þrjá leikina og í síðasta leik, gegn Njarðvík, skoraði Jefferson 18 stig á þeim aðeins 15 mínútum sem hann spilaði, auk þess að taka þrjú fráköst og gefa tvær stoðsendingar.
Eftir þrjá sigra í röð í deildinni, eða frá því að Kristófer Acox sneri aftur eftir meiðsli, eru Valsmenn í 7. sæti með 16 stig líkt og Þór Þ., Grindavík og KR sem eru í næstu sætum fyrir ofan, nú þegar sex umferðir eru eftir fram að úrslitakeppni.