Skoðun

Litla flugan

Rebekka Hlín Rúnarsdóttir skrifar

Líffræðilegur fjölbreytileiki er hugtak sem lýsir náttúruauð, breytileika tegunda og erfðamengi þeirra. Þessi málaflokkur hefur ekki fengið mikla umfjöllun á Íslandi enda er tegundaauðgin hér á landi ekki til jafns á við frumskóga hitabeltisins, eða hvað?

Til að mynda finnast hér sjö tegundir býflugna af ættkvíslinni Bombus, en aðeins tvær í Færeyjum og á Grænlandi, sem er strax áhugavert. Á höfuðborgarsvæðinu sjást þær t.d. í Hljómskálagarðinum, Elliðaárdal og í Fossvoginum, en væri ekki notalegt að sjá þær víðar?

Með meiri og þéttari uppbyggingu í borginni þarf náttúran undan að láta og það er hvorki gott fyrir okkur íbúana né býflugurnar. Fjölmargar rannsóknir sýna fram á að lífið í borginni getur haft slæm áhrif á andlega heilsu, t.a.m. aukið líkur á kvíða og þunglyndi. Til að vinna gegn þessu er mikilvægt að fjarlægjast ekki náttúrunni, enda erum við öll hluti af henni.

Í staðinn fyrir víðfeðmar grænar grasflatir og unglinga á sláttuvélum, væri ekki upplagt að bjóða velkomnar íslenskar blómategundir sem býflugum finnast ákjósanlegar. Þar má nefna gamla góða túnfífilinn, ætihvönn, sóley, mjaðjurt og bláberjalyng. Einnig mætti hvetja íbúa til að gróðursetja í sínum eigin görðum, blóm sem býflugur sækja í t.d. garðabrúðu, valurt og garðalúpínu.

Fjölmargar tegundir eiga undir högg að sækja alls staðar í heiminum vegna samkeppni við okkur mannfólkið en það er okkar hagur að berjast fyrir auknum líffræðilegum fjölbreytileika. Á miðvikudag 5. febrúar kl.12:00-13:30 fer fram málþing í hátíðasal Háskóla Íslands þar sem meðal annars verður fjallað um líffræðilegan fjölbreytileika.

Ég er viss um að unglingavinnan geti fundið önnur verkefni fyrir ungmenni landsins en að reyta fífla úr sprungum í gangstéttinni, og allir sem eiga aðild að máli yrðu hamingjusamari fyrir vikið.

Höfundur er nemandi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×